Fulltrúadeild Bandaríkjaþings hefur með yfirgnæfandi meirihluta samþykkt frumvarp sem myndi þvinga samfélagsmiðilinn TikTok til að losa sig við kínverska eigendur sína ellegar eiga yfir höfði sér bann í Bandaríkjunum.
Frumvarpið er hluti af víðtækari hjálparpakka sem nú er kosið um í fulltrúadeildinni. Pakkinn felur meðal annars í sér aukinn hernaðarstuðning við Úkraínu, Ísrael og Taívan ásamt ákvæðum um upptöku rússneskra eigna og nýjum refsiaðgerðum gegn Íran, Rússlandi og Kína.
Bandarískir embættismenn hafa undanfarið lýst yfir áhyggjum sínum af vinsældum samfélagsmiðilsins og meðal annars sagt hann vera tæki kínverskra stjórnvalda til að dreifa áróðri sínum. Fyrirtækið hefur neitað fullyrðingunum.
Fyrir tveimur mánuðum samþykkti meirihluti fulltrúardeildar sjálfstætt frumvarp um bann við TikTok en frumvarpið hefur dúsað í Öldungadeildinni síðan þá.
Talið er að með því að lauma TikTok-frumvarpinu inn í hjálparpakkann sé fulltrúadeildin að setja þrýsting á öldungadeildarþingmenn.
Þeir öldungadeildarþingmenn, sem telja brýnt að veita Úkraínu og Ísrael hernaðaraðstoð, hafa ekki annarra kosta völ en að samþykkja hjálparpakkann og þar af leiðandi TikTok-frumvarpið.
Joe Biden bandaríkjaforseti sagði í síðasta mánuði að hann myndi undirrita TikTok-frumvarpið ef það yrði samþykkt af þinginu.
Fyrr í vikunni sagði Biden að „fulltrúadeildin verði að samþykkja pakkann í þessari viku og öldungadeildin ætti að fylgja fljótt eftir,“ um hjálparpakkann sem nú er kosið um og inniheldur meðal annars TikTok-frumvarpið.
Samkvæmt frumvarpinu hefði ByteDance, móðurfyrirtæki samfélagsmiðilsins, allt að 360 daga til að selja TikTok.
Forsvarsmenn TikTok hafa sagt tilraunir þingmanna til að banna forritið ganga gegn málfrelsi og hafa þeir mótmælt harðlega allri tengingu við kínversk stjórnvöld.
Notendur samfélagsmiðilsins í Bankaríkjunum eru um 170 milljónir og ef lögin yrðu samþykkt í öldungadeildinni myndi það hafa gríðarleg áhrif á fyrirtækið.