Tveir voru drepnir og sex særðust í skotárás í samkvæmi í borginni Memphis í bandaríska ríkinu Tennessee í gær.
Þeir sem voru drepnir fundust látnir á vettvangi og einn þeirra sex sem særðust er í lífshættu, að sögn lögreglunnar í Memphis.
Árásin var gerð í hverfissamkvæmi sem var haldið án leyfis skammt frá Orange Mound Park þar sem gestir voru um 200 til 300 talsins.
Byssuofbeldi er algengt í Bandaríkjunum, þar sem skotvopn eru fleiri en íbúafjöldi. Alls hafa 120 fjöldaskotárásir verið skráðar á þessu ári, að því er kemur fram í tölum samtakanna Gun Violence Archive sem skilgreina fjöldaskotárás sem atburð þar sem fjórir eða fleiri eru særðir eða drepnir.
Á síðasta ári voru 656 slíkar árásir skráðar í landinu.