Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna og núverandi forsetaframbjóðandi Repúblikana, var mættur í dómsal á Manhattan í New York í morgun þar sem opnunarræður í dómsmáli gegn honum voru fluttar.
Í málinu er Trump sakaður um að hafa falsað reikninga og önnur viðskiptagögn í tengslum við mútugreiðslur til klámmyndaleikkonunnar Stormy Daniels í skiptum fyrir þögn hennar um samskipti þeirra árið 2006. Átti greiðslan sér stað árið 2016, þegar kosningabarátta Trumps við Hillary Clinton stóð sem hæst.
Trump er fyrsti fyrrverandi forseti Bandaríkjanna sem þarf að mæta fyrir dóm, en málið er eitt af nokkrum sem höfðuð hafa verið gegn honum eftir að hann lét af embætti forseta.
Val á kviðdómi fór fram í síðustu viku og tók styttri tíma en margir höfðu gert ráð fyrir. Eru fimm konur og sjö karlar í kviðdómnum, en passað hefur verið upp á að greina ekki frá nöfnum þeirra til að vernda þeirra eigið öryggi.
Meint brot í þessu máli teljast lítilvægari en meint brot hans í þremur öðrum málum sem höfðuð hafa verið gegn honum. Er það mál í Flórída um misferli með trúnaðarskjöl Hvíta hússins sem fundust á dvalarstað hans í ríkinu. Þá var hann ákærður af alríkinu í Washington D.C. og snýr það að ólögmætri tilraun hans til að hafa áhrif á niðurstöður forsetakosninganna árið 2020. Að lokum var ákæra gefin út í Georgíu í 13 liðum, en hún snýr einnig að ólögmætum tilraunum hans til að hafa áhrif á niðurstöður forsetakosninganna, en einskorðast við Georgíuríki.