Bretar munu senda hælisleitendur til Rúanda

Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, lagði fram frumvarpið. Er þetta talinn …
Rishi Sunak, forsætisráðherra Bretlands, lagði fram frumvarpið. Er þetta talinn vera pólitískur sigur fyrir hann. AFP/Toby Melville

Breska þingið hefur samþykkt frumvarp Rishi Sunak forsætisráðherra um að senda hælisleitendur til Rúanda. Talið er að um 52 þúsund manns verði sendir til Rúanda vegna laganna.

Frumvarpið komst ekki í gegnum þingið hindrunarlaust en lávarðadeild þess hafði sent frumvarpið fimm sinnum til baka til neðri deildarinnar með breytingum. Seint í gærkvöldi gaf lávarðadeildin eftir og samþykkti frumvarpið. 

Lögin gilda aðeins um þá hælisleitendur sem hafa sótt um hæli í Bretlandi án leyfis og koma frá öruggu landi.

Breska ríkisútvarpið greinir frá.

Ekkert mun standa í vegi fyrir flugferðunum

Tilgangur frumvarpsins er að auka fælingarmátt vegna þeirra hælisleitenda sem ferðast með bátum um Ermarsund til Bretlands.

„Við lögðum fram frumvarpið til að hindra hælisleitendur í viðkvæmri stöðu frá því að fara í hættulegar ferðir og til að brjóta á bak aftur viðskiptamódel glæpagengja sem misnota þá. Núna munum við leggja áherslu á að koma flugvélunum á loft, og ég segi það skýrt að það mun ekkert standa í vegi fyrir því að við gerum það og björgum lífum,“ sagði Rish Sunak.

Vilja að þingið endurskoði ákvörðun sína

Bresk stjórnvöld munu greiða Rúanda um 65 milljarða króna á næstu fimm árum til að annast þetta verkefni. Í lögunum felst einnig réttur ráðherra til að hunsa Mannréttindadómstól Evrópu, úrskurði hann að ekki megi senda fólkið til Rúanda.

Áður en frumvarpið var samþykkt í gærkvöldi sagði Sunak að flugferðirnar til Rúanda gætu hafist eftir 10 til 12 vikur. 

Volker Turk, yfirmaður mannréttindamála hjá Sameinuðu Þjóðunum, og Filippo Grande, yfirmaður flóttamannamála hjá sömu stofnun, hafa kallað eftir því að breska þingið endurskoði ákvörðun sína. Segja þeir að með lögunum séu alþjóðalög virt að vettugi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert