Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti í nótt fjögur frumvörp saman í pakka með útgjöldum sem hljóða upp á 95 milljarða bandaríkjadala, eða 13.461 milljarð íslenskra króna. Felur þetta í sér umfangsmikinn hernaðarstuðning fyrir Úkraínu, Ísrael og Taívan.
Eitt af þessum frumvörpum sem var samþykkt þvingar samfélagsmiðilinn TikTok til að losa sig við kínverska eigendur sína ellegar eiga yfir höfði sér bann í Bandaríkjunum.
Bæði fulltrúadeildin og öldungadeildin hafa því samþykkt þennan pakka og í dag mun Joe Biden Bandaríkjaforseti undirrita lögin. Segir hann að þannig verði hægt að byrja að senda vopn til Úkraínu í þessari viku, en mikill vopnaskortur er í landinu.
Talsmaður varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna sagði við blaðamenn í gær að hernaðarstuðningur fyrir Úkraínu myndi byrja að berast þeim í vikunni.
Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, þakkaði Bandaríkjamönnum um leið og pakkinn var samþykktur en 61 milljarði dala verður varið í hernaðarstuðning fyrir Úkraínu.
Pakkinn felur einnig í sér ákvæði um upptöku rússneskra eigna og nýjar refsiaðgerðir gegn Íran, Rússlandi og Kína.
13 milljörðum dollara verður varið í hernaðarstuðning fyrir Ísrael sem stendur í stríði við hryðjuverkasamtökin Hamas. Israel Katz, utanríkisráðherra Ísraels, þakkaði öldungadeildinni fyrir samþykkt pakkans. Sagði Katz þetta senda óvinum vinaþjóðanna skýr skilaboð.
Þá verður níu milljörðum dollara varið í mannúðaraðstoð fyrir fólk á Gasa, Súdan, Haítí og á fleiri stöðum. Átta milljörðum dollara verður varið í hernaðarstuðning til Taívan.
Pakkinn naut stuðnings 79 þingmanna í öldungadeildinni en 18 þingmenn greiddu atkvæði gegn honum.