Hernaðaraðstoð samþykkt – Vopnasendingar í vikunni

Bandaríkjaþing hefur samþykkt umfangsmikla hernaðaraðstoð fyrir Úkraínu, Ísrael og Taívan. …
Bandaríkjaþing hefur samþykkt umfangsmikla hernaðaraðstoð fyrir Úkraínu, Ísrael og Taívan. Biden undirritar lögin í dag. AFP/Kevin Dietsch

Öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti í nótt fjög­ur frum­vörp saman í pakka með út­gjöld­um sem hljóða upp á 95 millj­arða bandaríkjadala, eða 13.461 millj­arð ís­lenskra króna. Felur þetta í sér umfangsmikinn hernaðarstuðning fyrir Úkraínu, Ísrael og Taívan. 

Eitt af þessum frumvörpum sem var samþykkt þvingar sam­fé­lags­miðil­inn TikTok til að losa sig við kín­verska eig­end­ur sína ell­egar eiga yfir höfði sér bann í Banda­ríkj­un­um.

Bæði fulltrúadeildin og öldungadeildin hafa því samþykkt þennan pakka og í dag mun Joe Biden Bandaríkjaforseti undirrita lögin. Segir hann að þannig verði hægt að byrja að senda vopn til Úkraínu í þessari viku, en mikill vopnaskortur er í landinu.

Selenskí þakkar Bandaríkjamönnum

Talsmaður varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna sagði við blaðamenn í gær að hernaðarstuðningur fyrir Úkraínu myndi byrja að berast þeim í vikunni.

Volodimír Selenskí, forseti Úkraínu, þakkaði Bandaríkjamönnum um leið og pakkinn var samþykktur en 61 milljarði dala verður varið í hernaðarstuðning fyrir Úkraínu.

Pakkinn felur einnig í sér ákvæði um upp­töku rúss­neskra eigna og nýj­ar refsiaðgerðir gegn Íran, Rússlandi og Kína.

13 milljörðum varið í Ísrael

13 milljörðum dollara verður varið í hernaðarstuðning fyrir Ísrael sem stendur í stríði við hryðjuverkasamtökin Hamas. Israel Katz, utanríkisráðherra Ísraels, þakkaði öldungadeildinni fyrir samþykkt pakkans. Sagði Katz þetta senda óvinum vinaþjóðanna skýr skilaboð.

Þá verður níu milljörðum dollara varið í mannúðaraðstoð fyrir fólk á Gasa, Súdan, Haítí og á fleiri stöðum. Átta milljörðum dollara verður varið í hernaðarstuðning til Taívan.

Pakkinn naut stuðnings 79 þingmanna í öldungadeildinni en 18 þingmenn greiddu atkvæði gegn honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert