Hæstiréttur New York-ríkis hefur ógilt dóm yfir kvikmyndaframleiðandanum Harvey Weinstein. Hann var fundinn sekur um nauðgun árið 2020.
Hæstiréttur hefur vísað málinu til lægra dómstigs á ný.
Telur hæstiréttur dómarann í málinu ekki hafa verið hlutlausan í garð Weinstein í réttarhöldunum árið 2020. Var m.a. vísað til þess að konur hefðu fengið að bera fram ásakanir á hendur Weinstein sem ekki voru hluti af sakarefninu sem réttað var um.
Kvikmyndaframleiðandinn, sem er á áttræðisaldri, afplánar nú 23 ára fangelsisdóm fyrir nauðgun og önnur kynferðisbrot.
Árið 2022 var Weinstein einnig fundinn sekur um nauðgun og dæmdur í 16 ára fangelsi. Mun hann því ekki ganga laus þrátt fyrir niðurstöðu hæstaréttar.
Fréttin hefur verið uppfærð.