Fyrrverandi leiðtoga Lýðræðislega sambandsflokksins (DUP) í Norður-Írlandi, Sir Jeffrey Donaldson, hefur verið vikið úr flokknum í kjölfar handtöku í mars.
Þingmanninum, sem situr á breska þinginu, hefur nú verið birt ákæra um nauðgun, óviðeigandi hegðun gagnvart barni og níu tilfelli kynferðisbrota á stefnumótum á árunum 1985 til 2006.
Eiginkona þingmannsins, Eleanor Donaldson, mætti með honum fyrir Newry Magestrates-réttinn. Var það ekki eingöngu til að styðja og styrkja hann á ögurstundu heldur vegna þess að hún er einnig ákærð í málinu, eða fyrir samverknað með þingmanninum.
Bæði ganga þau hjónin þó laus þar sem dómari ákvað þeim tryggingafé sem þau reiddu fram. Þingflokkur Donaldsons segir í yfirlýsingu að flokksformaðurinn hafi móttekið bréf þingmannsins þar sem hann staðfesti að hann væri borinn „sögulegum sökum“ og hygðist í ljósi þess hverfa frá stöðu sinni sem leiðtogi og formaður DUP.
„Í samræmi við reglur flokksins hafa stjórnendur hans vikið herra Donaldson úr honum á meðan niðurstöðu dómsmálsins er beðið,“ segir í yfirlýsingunni,
Donaldson hefur gegnt þingmennsku í 27 ár og hlaut nafnbótina Sir þegar hann var aðlaður árið 2016.