Truong My Lan, fasteignajöfur í Víetnam, sem dæmd var til dauða fyrir stórfelld fjársvik, hyggst áfrýja dauðadómi, sem kveðinn var upp í máli hennar fyrr í mánuðinum.
Var hún dæmd fyrir að hafa svikið sér fé sem nemur 27 milljörðum bandaríkjadala. Náði hún að svíkja út reiðufé frá Verslunarbanka Saígon (SCB) og teygði svikamálið sig yfir heilan áratug.
Truong My Lan, sem er tæplega sjötug, er talin hafa dregið sér fé sem nemur 12,5 milljörðum bandaríkjadala en saksóknari færði rök fyrir því að afleiðingar fjársvika hennar væru mun alvarlegri, og næmu 27 milljörðum bandaríkjadala, sem fyrr segir.
Er mál hennar talið til stærri fjársvikamála sögunnar og nemur til dæmis upphæðin til um 6% vergrar landsframleiðslu Víetnam árið 2023.
Lan hefur nú lagt fyrir beiðni um áfrýjun þar sem hún óskar eftir því að dómnum og refsingunni verði hnekkt. Dæmt var í málinu í Ho Chi Minh-borg (áður Saígon).
Í áfrýjunarbeiðninni kemur fram að Lan hafi tekið áhættusamar fjármálaákvarðanir fyrir hönd bankans en að hún hafi ekki dregið sér fé.
Réttarhöldin yfir Lan stóðu yfir í fimm vikur og voru 85 aðrir dæmdir í sama máli fyrir ýmsar sakir, svo sem mútugreiðslur, valdníðslu og brot á lögum um fjármálarekstur.
Refsins var ólík eftir tilvikum, fengu fjórir lífstíðarfangelsi, en aðrir fengu fangelsisdóma allt að tuttugu árum.
Lögreglan í Víetnam segir að fórnalömb fjársvikanna séu um 42 þúsund talsins. Er þetta tiltekna mál liður í aðgerðum stjórnvalda til að berjast gegn spillingu í landinu sem margir embættismenn og fyrirmenn í viðskiptalífinu hafa fengið að finna fyrir á undanförnum árum. Nú síðast sagði þingforsetinn af sér vegna stórfelldrar vanrækslu, að því kemur fram í yfirlýsingu frá kommúnistaflokknum.
Nú síðast í gær var einn helsti gosdrykkjaframleiðandi landsins settur í fangelsi til næstu átta ára fyrir að hafa svikið fé sem nemur 40 milljónum bandaríkjadala.