Yousaf segir líklega af sér

Gert er ráð fyrir að forsætisráðherra skosku heimastjórnarinnar, Humza Yousaf, …
Gert er ráð fyrir að forsætisráðherra skosku heimastjórnarinnar, Humza Yousaf, muni segja af sér fyrir hádegi í dag. AFP/Andy Buchanan

Talið er að Humza Yousaf, forsætisráðherra skosku heimastjórnarinnar, muni segja af sér á blaðamannafundi nú fyrir hádegi. Tvær vantrauststillögur gegn ráðherranum liggja nú fyrir skoska þinginu.

Aðeins ár í embætti 

Fjölmiðlar á borð við BBC og The Times hafa flutt fréttir af því að Yousaf, sem er leiðtogi Skoska þjóðarflokksins (SNP), muni segja af sér embætti í dag eftir að hafa gegnt stöðunni í rúmlega ár. 

Undanfarnir dagar hafa reynst ráðherranum erfiðir eftir að slitnaði upp úr samstarfi Skoska þjóðarflokksins og Skoskra græningja, sem farið höfðu með stjórn Skotlands.

Ríkisstjórnin hefur dregið úr metnaðarfullum áætlunum sínum í því að ná fram kolefnishlutleysi í Skotlandi, við litla hrifningu Skoskra græningja.

Græningjar munu styðja vantraust gegn Yousaf

Íhaldsmenn í þingi skosku heimastjórnarinnar hafa þegar lagt fram vantraust á Yousaf, sem er líklegt að tekið verði fyrir á miðvikudaginn. Skoski verkamannaflokkurinn hefur gert slíkt hið sama. Staða hans er mjög veik þar sem bæði Íhaldsmenn, Verkamannaflokkurinn og Frjálslyndir demókratar hafa allir sagst ætla styðja vantrauststillögur.

Græningjar hafa eins sagst ekki muni styðja hann sé vantrausttillaga lögð fram gegn ráðherranum sjálfum.

Fari svo að Yousaf segi af sér hefur þingið 28 daga til þess að velja nýjan forsætisráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert