Fjórtán ára drengur lét lífið í árásinni

Lögreglumaður hleypir manni út af vettvangi glæpsins.
Lögreglumaður hleypir manni út af vettvangi glæpsins. AFP/Adrian Dennis

Fjórtán ára drengur lét lífið eftir að karl­maður á fer­tugs­aldri með sverð réðst á fólk í Hai­nault-hverfi í norðaust­ur­hluta Lund­úna í morg­un.

Þetta staðfestir yfirlögregluþjónninn Stuart Bell í samtali við BBC. Drengurinn lést af sárum sínum á spítala en hann var meðal þeirra fimm særðu sem fluttir voru á sjúkrahús eftir árásina. 

Stuart Bell yfirlögregluþjónn ávarpar fjölmiðla í kjölfar árásarinnar.
Stuart Bell yfirlögregluþjónn ávarpar fjölmiðla í kjölfar árásarinnar. AFP/Adrian Dennis

Aðrir sem særðust ekki lífshættulega slasaðir

Lögreglan handtók manninn 22 mínútum eftir fyrsta símtalið sem henni barst um árásina. Maðurinn sem er 36 ára gamall situr í varðhaldi og er sá eini grunaði í málinu.

Ekki er útlit fyrir að um hryðjuverk hafi verið að ræða. 

Bell staðfestir að fimm manns hafi særst í árásinni, þar af tveir lögreglumenn og þrír almennir borgarar, einn þeirra, sem lést af sárum sínum, einungis þrettán ára gamall.

Hann segir hina þá sem særðust ekki lífshættulega særða, lögreglumennirnir þurfi þó að gangast undir aðgerð.

Fréttin hefur verið leiðrétt:

Upphaflega sagði að drengurinn hefði verið þrettán ára gamall.

Hið rétta er að drengurinn var fjórtán ára gamall. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert