Fimm eru á sjúkrahúsi eftir að karlmaður á fertugsaldri með sverð réðst á fólk í Hainault-hverfi í norðausturhluta Lundúna í morgun. Lögreglan hefur handtekið manninn sem situr nú í varðhaldi. Tveir lögregluþjónar eru meðal þeirra særðu.
Sjónarvottur sem var í Hainault-hverfi í morgun kveðst hafa heyrt öskur eftir að hafa fylgst með lögregluþjónum elta árásarmanninn í húsasund.
„Ég heyrði orðin „hann er með stóran hníf“ eða „hann er með stórt sverð“. Síðan hvarf hann í húsasund og var kominn úr sjónmáli,“ sagði sjónarvottur við PA-fréttastofuna.
„Lögreglan fór í húsasundið og það virtist vera einhvers konar umsátur þar og þaðan komu svo mikil læti og svo heyrði ég öskur.“
Telur sjónarvotturinn að árásarmaðurinn hafi stungið konu í látunum.
„Ég held að það gæti hafa verið kona af því að ég heyrði konu öskra og svo einhvers konar gráthljóð,“ sagði sjónarvotturinn og hélt áfram:
„Síðan heyrði ég rödd segja eitthvað á borð við: „Hún var stungin í andlitið“ eða „við þurfum aðstoð“ – hann var að hringja eftir læknishjálp.“
Chris Bates, íbúi í nágrenninu, segist hafa fylgst með lögreglu handtaka árásarmanninn.
„Hann var með stórt samúræjasverð. Þetta var risastórt sverð. Ég fylgdist með þessu öllu í gegnum svefnherbergisgluggann minn og þegar hann var kominn í innkeyrslu neðar í götunni þá hljóp ég út og svo notaði lögreglan rafbyssu á hann,“ sagði Bates við BBC.
Sagði hann atburðinn hræðilegan og hafa gerst á versta tíma, þegar flestir voru á leið til skóla eða vinnu.
„Þetta er það síðasta sem þú átt von á, einhver að hlaupa um nágrennið með samúræjasverð.“
Hann kveðst þakklátur fyrir að hafa ekki skroppið út í búð um morguninn að sækja mjólk.
„Annars hefði ég mætt honum og guð má vita hvað hefði gerst. Lögregla á þakkir skilið, hún sýndi mikið hugrekki.“