Hvað verður um plastið?

Plastskúlptúr eftir kanadíska listamanninn Benjamin Von Wong fyrir utan bygginguna …
Plastskúlptúr eftir kanadíska listamanninn Benjamin Von Wong fyrir utan bygginguna í Ottawa þar sem viðræðurnar fóru fram. AFP/Dave Chan

Fjórðu og næstsíðustu umferð samningaviðræðna til að draga úr plastmengun í heiminum lauk í kanadísku höfuðborginni Ottawa í morgun.

Búist er við því að alþjóðlegur samningur, sá fyrsti sinnar tegundar, verði tilbúinn í lok ársins, án þess þó að hámark verði sett á plastframleiðslu. Sameinuðu þjóðarnar leiða samningaviðræðurnar.

Fulltrúar frá 175 þjóðum voru á meðal þeirra sem ræddu drög að alþjóðlegum sáttmála um að vinna bug á plastplágunni, sem hefur dreift sér víða, þar á meðal á fjallstindum, í sjónum en einnig í blóði manna og brjóstamjólk.

Steven Guilbeault, umhverfis- og loftslagsráðherra Kanada, á ráðstefnunni.
Steven Guilbeault, umhverfis- og loftslagsráðherra Kanada, á ráðstefnunni. AFP/Dave Chan

Bjartsýn á samkomulag í lok ársins

Í viðræðunum í Ottawa var tekinn upp þráðurinn síðan þeim lauk í Kenía fyrir fimm mánuðum síðan. Lokaumferð viðræðnanna fer síðan fram í Suður-Kóreu í nóvember.

Viðræðurnar í Ottawa báru vott um „gríðarmikla breytingu í tóni og orku” miðað við síðustu umferð, að sögn kanadísku þingkonunnar Julie Dabrusin.

„Ég er mjög bjartsýn á að við náum samkomulagi í lok ársins [...] um að binda enda á plastmengun fyrir árið 2040,” sagði hún.

Aðgerðasinnar í Ottawa.
Aðgerðasinnar í Ottawa. AFP/Dave Chan

Þak á plastmengun komst ekki inn 

Þak á plastframleiðslu, sem hafði verði lagt til, náði þó ekki inn í texta með samningsdrögum sem var samþykktur í lok ráðstefnunnar í Ottawa.

Aðgerðasinnar hafa barist fyrir því að dregið verði úr plastframleiðslu. Þjóðir sem framleiða olíu og plastiðnaðurinn hafa aftur á móti talað gegn því og vilja þau frekar endurvinna plastið sem fyrir er.

„Þú getur ekki bundið binda enda á plastmengun ef þú dregur ekki úr magni plastsins sem er framleitt,” sagði Graham Forbes hjá Greenpeace við AFP.

Árleg plastframleiðsla tvöfaldast

Árleg plastframleiðsla hefur meira en tvöfaldast á síðustu 20 árum. Núna nemur hún 460 milljónum tonna og er á góðri leið með að þrefaldast innan fjögurra áratuga ef ekkert verður að gert.

„Það hvernig tekist verður á við plastframleiðslu mun skera úr um hvort þessi sáttmáli telst vel heppnaður eða ekki. Ekkert annað mun ganga ef við gerum þetta ekki á réttan hátt,” sagði Forbes.

Fundur umhverfisráðherra G7-ríkjanna er fyrirhugaður á Ítalíu þar sem rætt verður um möguleikann á því að draga úr plastframleiðslu.

Í Ottawa lögðu Perú og Rúanda til að dregið verði úr plastframleiðslu um 40 prósent á næstu 15 árum, sem er í takti við markmið Parísarsáttmálans. Plastframleiðsla á sinn þátt í hlýnun jarðar vegna þess að flest plastefni eru gerð úr jarðefnaeldsneyti.

Liðsmenn Greenpeace í Ottawa.
Liðsmenn Greenpeace í Ottawa. AFP/Dave Chan

Alejandra Parra frá Suður-Ameríku sagði á ráðstefnunni að endurvinnsla á plasti væri „falskur kostur”.

Hún sagði að mikið af plasti væri ekki eða gæti ekki verið endurunnið.

Ókosturinn sem fylgdi því að bræða plast inn í önnur form væri jafnframt sá að eiturefnum og gróðurhúsalofttegundum væri sleppt út í andrúmsloftið. Einnig sagði hún söfnun og flokkun á endurvinnanlegu plasti vera tiltölulega dýra.

Frá ráðstefnunni í Ottawa.
Frá ráðstefnunni í Ottawa. AFP/Dave Chan
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert