300 handtekin í mótmælum við Columbia-háskóla

Lögregla var kölluð til vegna mótmælanna í gær.
Lögregla var kölluð til vegna mótmælanna í gær. AFP/Kena Betancur

Lögregluyfirvöld í New York hafa handtekið um 300 mótmælendur sem tóku þátt í mótmælum vegna stríðsins á Gasa­svæðinu við Columbia-háskóla í borginni. 

Eric Adams borgarstjóri sagði á blaðamannafundi fyrr í dag að ákveðið hefði verið að kalla til lögreglu í kjölfar þess að utanaðkomandi aðgerðarsinnar hefðu slegist í hóp mótmælenda. 

Mótmælin ekki friðsæl að mati yfirvalda

Þá sagði Adams að gyðingahatur og andóf gegn Ísrael hefði færst í aukana meðal mótmælenda. Hann bætti við að aðgerðarsinnar hefðu ekki tekið þátt í mótmælunum á friðsamlegan hátt heldur reynt að skapa glundroða. 

„Það er ekkert friðsælt við að hindra aðgang að byggingum, eyðileggja eignir eða taka úr sambandi öryggismyndavélar,“ sagði hann við blaðamenn.

Í gær tóku nemendur yfir Hamilton Hall, sem er ein af byggingum Columbia-háskólans, og læstu sig þar inni. Lögreglan ruddi sér leið inn í bygginguna og handtók nemendur í hópnum. 

Nemendur hindruðu aðgang að Hamilton Hall byggingunni. Lögreglan komst inn …
Nemendur hindruðu aðgang að Hamilton Hall byggingunni. Lögreglan komst inn í bygginguna og leiddi mótmælendur út í handjárnum. AFP/Kena Betancur

Adams sagði á fundinum að meðal þeirra sem hefðu brotist inn í bygginguna voru nemendur, en að aðgerðinni hefði verið stýrt af fólki sem tengist ekki háskólanum. 

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er ekki ljóst hvort þeir tæplega 300 sem voru handteknir í aðgerðunum eru nemendur eða utanaðkomandi einstaklingar. Verið er að fara yfir gögn til að varpa betur ljósi á það. 

Lögreglan hefur nú fjarlægt tjaldbúðir af skólalóðinni.
Lögreglan hefur nú fjarlægt tjaldbúðir af skólalóðinni. AFP/Kena Betancur

Lögreglan hefur nú fjarlægt tjaldbúðir af skólalóðinni og komið mótmælendum úr Hamilton Hall-byggingunni.

Allt skólastarf við Columbia-háskóla er nú í fjarkennslu og verður lögreglan með viðveru á háskólasvæðinu til 17. maí. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert