Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Antony Blinken, heimsótti Gasasvæðið í dag til þess að kynna sér aðstæður. Lýsti hann yfir áhyggjum sínum varðandi flutning hjálpargagna til svæðisins á fundi sínum með forsætisráðherra Ísraels, Benjamín Netanjahú.
Blinken heimsótti m.a. landamærastöðina Kerem Shalom en hún er ein af þeim stöðvum þar sem hjálpargögn til Gasasvæðisins fara um. Var fjöldi vöruflutningabíla sem beið þess að fá inngöngu á svæðið þegar Blinken kom þar að.
Blinken sagðist fagna þeim árangri sem hefði náðst í flutningi hjálpargagna til Gasa, en að enn vantaði þó upp á að nægileg neyðaraðstoð bærist þangað.
Þá biðlaði hann til ísraelskra stjórnvalda um að gera meira til þess að tryggja fljótan og öruggan flutning hjálpargagnanna inn á Gasa.