Átök hafa brotist út meðal ólíkra fylkinga nemenda sem mótmæla nú við UCLA-háskólalóðina í bandarísku borginni Los Angeles.
Annar hópurinn styður Ísrael og hinn Palestínu og hafa hóparnir verið að mótmæla á skólalóðinni undanfarna daga.
Lögreglan hefur verið kölluð til.
Togstreita á milli hópana tveggja hefur verið að aukast síðustu daga. Samkvæmt sjónarvottum réðst hópur stuðningsmanna Ísraels á tjaldbúðir stuðningsfólks Palestínu og brutust óeirðirnar út í kjölfarið, að því er BBC greindi frá.
Í myndskeiði sem birt hefur verið á samfélagsmiðlinum X má sjá mótmælendur ráðast hvor á annan.
Grímuklæddir mótmælendur komu á svæðið um miðja nótt og reyndu að rífa niður girðingar að tjaldbúðum Palestínustuðningsmanna, að því er dagblaðið Los Angeles Times greindi frá.
Dylan Winward, nemandi við háskólann, sagði í samtali við BBC að lögregla hefði notað táragas á svæðinu. Að hans sögn kom hópur stuðningsmanna Ísraels á skólalóðina um klukkan 22 að staðartíma og hóf að henda hlutum í tjaldbúðir stuðningsmanna Palestínu.
Hópurinn kveikti í flugeldum, kastaði vatnsflöskum og notaði táragas.
Öryggisteymi á vegum háskólans hefur vaktað svæðið undanfarna daga og passað upp á að ákveðið varnarsvæði sé á milli hópanna tveggja. Öryggisteymið hefur nú dregið sig til baka.
Háskólayfirvöld hafa sagt að hræðileg ofbeldisbrot hafi átt sér stað á lóð skólans og að kallað hafi verið eftir aðstoð lögreglunnar.
Lögregla hefur handtekið mótmælendur í nokkrum háskólum í Bandaríkjunum sökum þess að þeir hafa neitað að yfirgefa háskólasvæðið þar sem mikil mótmæli vegna stríðsins á Gasasvæðinu hafa geisað.