Bandaríski rithöfundurinn Paul Auster er látinn 77 ára gamall.
Hann lést á heimili sínu í Brooklyn í New York í gærkvöldi umkringdur fjölskyldu sinni, þar á meðal eiginkonu sinni Siri Hustvedt, dóttur sinni Sophie Auster og vinkonu sinni, rithöfundinum Jacki Lyden, að því er segir í tilkynningu sem barst AFP-fréttastofunni.
Auster öðlaðist vinsældir fyrir New York-trílógíu sína á níunda og tíunda áratugnum, sérstaklega í Evrópu, ásamt kvikmynd sinni Smoke sem gerðist í Brooklyn.
Í mars í fyrra tilkynnti eiginkona Auster að hann hefði greinst með krabbamein. Bandarískir fjölmiðlar sögðu að hann hefði látist úr lungnakrabbameini.
Auster skrifaði yfir 30 bækur sem voru þýddar á yfir 40 tungumál.
Hann gekk í gegnum mikla sorg seint á lífsleiðinni þegar 10 mánaða barnabarn hans lést eftir að hafa innbyrt heróín og þegar sonur hans Daniel, faðir barnsins, lést úr of stórum skammti 10 mánuðum síðar.
Auster var gestur Bókmenntahátíðar í Reykjavík árið 2005.