Níutíu handteknir við Dartmouth

Mynd af mótmælum við UCLA-háskólann í Kaliforníuríki.
Mynd af mótmælum við UCLA-háskólann í Kaliforníuríki. AFP/Etienne Laurent

Níutíu mótmælendur voru handteknir á mótmælum til stuðnings Palestínu við Dartmouth-háskóla í Bandaríkjunum. Voru viðkomandi grunaðir um að hafa gerst brotlegir við lög, þar á meðal fyrir að vera á skólalóð í leyfisleysi og streitast gegn handtöku.

Mátti heyra mótmælendur hrópa „frjáls Palestína“ á meðan þeir héldu uppi skiltum.

Fólkið var handtekið í kjölfar þess að tjöld voru reist á skólalóð Dartmouth. 

CNN greinir frá.

Hlýddu ekki fyrirmælum lögreglu

„Þegar tjöldin voru reist tilkynnti öryggisgæsla Dartmouth margsinnis að þátttakendur yrðu að fara og þeir neituðu,“ sagði lögreglan í Hanover í tilkynningu.

Þá bað lögregla mótmælendur einnig um að yfirgefa svæðið. Sumir hlýddu fyrirmælunum á meðan aðrir kusu að vera eftir. Handtók lögregla þá mótmælendur sem óhlýðnuðust í kjölfarið.

Meðal þeirra handteknu voru nemendur við skólann en einnig voru aðrir sem gengu ekki í Dartmouth.

Sló í brýnu á milli fylkinga

Víða hefur verið mótmælt til stuðnings Palestínu við háskóla í Bandaríkjunum að undanförnu. 

Lögreglan í New York handtók í gær 300 mótmælendur við Columbia- og CUNY-háskólana.

Þá brutust út átök milli fylkinga við UCLA-háskólans í Kaliforníuríki í gær. Sló í brýnu á milli stuðningsmanna Ísraels og stuðningsmanna Palestínu á skólalóð UCLA.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert