Skólum og skrifstofum lokað vegna óveðurs

Margir bílar standa yfirgefnir vegna mikillar vatnshæðar.
Margir bílar standa yfirgefnir vegna mikillar vatnshæðar. AFP

Skólum og skrifstofum hefur verið lokað í Sameinuðu arabísku furstadæmunum í dag vegna óveðurs í nótt. Þetta er í annað sinn á tveimur vikum sem óveður með hellirigningu skellur á svæðið.

Mikið vatnsveður fylgdi óveðrinu, eða meira en 50 mm af úrkomu, og aflýsa eða fresta þurfti allt að 13 flugferðum í Dúbaí vegna flóða. Einnig hafa félögin Emirates og flydubai varað farþega við frekari frestunum.

Ekki hafa verið margir á ferðinni í Dúbaí í dag vegna flóða og eru margir yfirgefnir bílar úti á götum. Skólahald fer fram í gegnum fjarkennslu og skrifstofum hefur verið lokað.

Ferðamenn á leið á hótelið sitt í Dúbaí.
Ferðamenn á leið á hótelið sitt í Dúbaí. AFP

Sögulegur viðburður

Óveðrið í nótt var þó ekkert í samanburði við veðrið þann 16. apríl þegar úrkoma mældist 259,5 mm og 25 manns létust á Persaflóa og í Óman.

Úrkoman þann 16. apríl var sögulegur viðburður og sló öll met frá því að mælingar hófust árið 1949. 

World Weather Attribution, hópur vísindamanna sem greinir hlutverk hlýnunar jarðar í veðurhamförum, telur hlýnun jarðar vera eina helstu ástæðu óveðursins og að áframhaldandi brennsla jarðefnaeldsneytis auki líkurnar á slíkum atburðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert