Rannsaka hvort starfsmenn hafi falsað gögn

Rekstur Boeing hefur verið í járnum undanfarin ár eftir ítrekuð …
Rekstur Boeing hefur verið í járnum undanfarin ár eftir ítrekuð vandamál sem tengjast vélum félagsins. AFP/Kevin Dietsch

Bandarísk flugmálayfirvöld hyggjast rannsaka hvort flugvélaframleiðandinn Boeing hafi lokið öllum tilskildum skoðunum á 787 Dreamliner-farþegaþotunni og hvort starfsmenn fyrirtækisins hafi falsað gögn.

Í yfirlýsingu flugmálayfirvalda segir að málið varði hvort Boeing hafi sinnt tilskildum prófunum til að ganga úr skugga um fullnægjandi tengingu þar sem vængirnir tengjast flugvélarskrokknum á ákveðnum 787 Dreamliner-flugvélum.

Upplýstu flugmálayfirvöld í apríl

Boeing greindu nýverið frá því að starfsmenn fyrirtækisins gætu hafa sleppt því að framkvæma ákveðnar skoðanir á farþegaþotunni. Boeing upplýsti flugmálayfirvöld um það í apríl.

Að sögn Boeing halda verkfræðingar fyrirtækisins því fram að flugöryggi sé ekki í hættu, þrátt fyrir misferlið.

Sendi póst á starfsmenn

Þann 29. apríl sendi framkvæmdastjóri verksmiðju Boeing í Norður-Charleston Í Suður-Karolínu, skilaboð á alla starfsmenn þar sem hann greindi frá því að einn starfsmaður hefði uppgötvað hvað væri á seiði og í kjölfarið upplýst um málið innanhúss. 

„Eftir að hafa fengið skýrsluna á okkar borð fórum við snögglega yfir málið og komumst að því að nokkrir starfsmenn hefðu verið að brjóta reglur fyrirtækisins með því að framkvæma ekki tilskildar prófanir en segja samt sem áður að verkinu væri lokið,“ ritaði Stocker.

„Verkfræðingarnir hafa gengið úr skugga um að misferlið skapi ekki yfirvofandi hættu fyrir flugöryggi. En þetta mun hafa áhrif á viðskiptavini okkar og þá sem vinna með verksmiðjunni því nú þarf að framkvæma prófanir sem passa ekki inn í ferlið við samsetningu flugvélanna.“

Þá sagði hann að Boeing hefði látið flugmálayfirvöld vita og væri að bregðast við með skjótum og öruggum hætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert