Hættu við vopnasendingu til Ísraels

Reykjarmökkur í borginni Rafah í gær eftir árás Ísraela.
Reykjarmökkur í borginni Rafah í gær eftir árás Ísraela. AFP

Bandaríkin hættu við að senda sprengjur til Ísraels í síðustu viku af ótta við að Ísraelsher myndi ráðast inn í borgina Rafah á suðurhluta Gasasvæðisins.

Háttsettur embættismaður sagði frá þessu.

Þetta er í fyrsta sinn síðan átökin hófust sem Joe Biden Bandaríkjaforseti kemur í veg fyrir hernaðaraðstoð til Ísraels.

Washington stöðvaði sendingu með alls 1.800 sprengjum (907 kílóa þungum) og 1.700 sprengjum til viðbótar (226 kílóa þungum) eftir að Ísraelar höfðu ekki „að fullu svarað” áhyggjum Bandaríkjamanna um stóra hernaðaraðgerð á jörðu niðri, að sögn embættismannsins.

Joe Biden.
Joe Biden. AFP/Andrew Caballeru-Reynolds

Hvíta húsið hefur gagnrýnt lokun Ísraelsmanna á landamærunum í Rafah hjá Egyptalandi eftir að Ísraelsher sendi þangað skriðdreka snemma í gær.

Á sama tíma eru viðræður í gangi um vopnahlé við Hamas-samtökin.

Með því að stöðva vopnasendinguna stóð Biden við orð sín sem hann lét falla í apríl um að stefna Bandaríkjamanna á Gasasvæðinu færi eftir því hvernig Ísraelar kæmu fram við almenna borgara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert