Fyrrverandi áróðursmeistari Norður-Kóreu, Kim Ki Nam, er látinn.
Ríkisfjölmiðill Norður-Kóreu greindi frá þessu og birti ljósmyndir af leiðtoga landsins, Kim Jong-un, við kistu hans.
Kim Ki Nam var 94 ára þegar hann lést í gær. Hann er þekktur fyrir að hafa stjórnað áróðursdeild norðurkóreskra stjórnvalda. Á áttunda áratugnum stjórnaði hann opinberu dagblaði stjórnvalda, Rodong Sinmun.
Kim Ki Nam er sagður hafa verið maðurinn á bak við það að magna upp fylgið heima fyrir á bak við Kim-ættarveldið.
Stjórnvöld í Norður-Kóreu lýstu honum sem „reyndum hluta af flokknum okkar og byltingunni, mikilsvirtum hugmyndafræðingi og virtum pólitískum aðgerðasinna”.