Kína varar bandaríska sjóherinn við

USS Halsey á leið sinni um Taívan sundið
USS Halsey á leið sinni um Taívan sundið AFP

Kínverski herinn hefur varað bandaríska sjóherinn við vegna herskips á þeirra vegum sem statt er í Suður-Kínahafi. Herskipið sigldi í gegnum Taívan-sundið og olli það mikilli reiði Kínverja.

Kínversk yfirvöld gera tilkall til nær alls Suður-Kínahafs þrátt fyrir að alþjóðleg lög kveði á um annað. Til að ýta undir markmið sitt er herinn með strandgæslu og sjóher að vakta hafsvæðið og hefur það valdið spennu í samskiptum við nærliggjandi lönd.

Talsmaður kínverska hersins, Tian Junli, sagði fyrir viku að Kínverjar hefðu eftirlit með Bandaríska herskipinu USS Halsey. Junli segir herskipið hafa ráðist ólöglega inn í landhelgi Kína án samþykkis kínverskra stjórnvalda. Hann bætti því við að þessar aðgerðir Bandaríkjanna brjóti alvarlega gegn bæði fullveldi og öryggi Kína.

Bandaríski sjóherinn hélt því aftur á móti fram að frjálsar ferðir um höfin væru réttur þeirra og herskipið yrði áfram í Suður-Kínahafi. Bandaríski sjóherinn bætti við að tilkall Kína til hafsvæðisins í Suður-Kínahafi sé alvarleg ógn við frjálsar ferðir um höfin.

Kína hefur einnig lengi gert tilkall til Taívans og útilokar ekki að beita valdi til að koma eyjunni alfarið undir stjórn Kína. Þessi spenna vekur upp ótta manna um hvort hugsanleg átök gætu sprottið upp á milli þessara ríkja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert