Telur smyglara ekkert betri en hryðjuverkamenn

Keir Starmer, leiðtogi Verkamannaflokksins.
Keir Starmer, leiðtogi Verkamannaflokksins. AFP/Paul Ellis

Keir Starmer, leiðtogi Verkamannaflokksins í Bretlandi, telur að stefna Rishi Sunak forsætirsáðherra „að stöðva bátana“ sé brella sem beri hvorki með sér árangur né fælingarmátt.

Þetta kom fram í ræðu Starmer á fundi í breska hafnarbænum Dover í dag. Sunak hefur ítrekað stuðning sinn við brotvísunaráætlun ríkisstjórnarinnar þrátt fyrir mótmæli mannréttindahópa og úrskurða dómstóla. 

Meira en 8.000 einstaklingar hafa farið yfir Ermasundið frá Norður-Frakklandi á þessu ári og um 52.000 einstaklingar búa í bráðabirgðahúsnæði stjórnvalda í Bretlandi, að sögn Starmer. Hann telur að brottvísunaráætlun ríkisstjórnarinnar takist ekki á við vandamálið og segir að hún sé til þess fallin að verða við óskum hægri manna sem eru á móti innflytjendum.

Hann bendir á að einungis nokkur hundruð einstaklingar hafa verið fluttir úr landi þrátt fyrir 600 milljóna punda kostnað. Það eru færri en sem nemur einu prósenti af þeim sem koma yfir Ermasundið á bátum á ári hverju.

Starmer segist vilja skipta brottvísunaráætluninni út fyrir nýja stefnu þar sem að miðpunkturinn verður ný landamæraöryggisstjórn sem sérfræðingar í innflytjendamálum og löggæslu, sem og breska leyniþjónustan MI5 koma að. Hann telur að hópar sem smygla einstaklingum inn til landsins séu ekkert betri en hryðjuverkamenn og að þörf sé á harðari forvörnum til að takast á við þá.

Hann sendi harðorð skilaboð til hópanna sem standa að smygli á einstaklingum til Bretlands: „Við munum finna ykkur, við munum stoppa ykkur og við munum vernda fórnarlömb ykkar [...] við munum tryggja landamæri Bretlands“.

Forsætisráðherra Bretlands Rishi Sunak
Forsætisráðherra Bretlands Rishi Sunak AFP/Henry Nicholls
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert