Rússar herða sókn í Úkraínu

Úkraínskir sjálfboðaliðar aðstoða íbúa Karkív við brottflutning í kjölfar innrás …
Úkraínskir sjálfboðaliðar aðstoða íbúa Karkív við brottflutning í kjölfar innrás Rússa. AFP/Sergey Bobok

Rússneskar hersveitir sækja nú fram af miklu afli nærri Karkív í norðurhluta Úkraínu. Varnarmálaráðuneyti Úkraínu sagði í gær að það hefði verið gerð „tilraun til að brjótast í gegnum varnarlínu Úkraínumanna með brynvörðum ökutækjum“.

Óbreyttum borgurum var gert að flýja svæðið um leið og hafa forsvarsmenn úkraínska hersins gefið út að árásin hafi verið stöðvuð. 

Harðir bardagar

Volodímír Selenskí for­seti Úkraínu sagði að harðir bardagar ættu sér nú stað á svæðinu norður af Karkív. 

Á blaðamannafundi í Kænugarði hét hann því að stöðva óvænta sókn Rússa og sagði hersveitir Úkraínu reiðubúnar að mæta herafla Rússa. Selenskí varaði þó við því að Rússar gætu sent fleiri hermenn á svæðið og styrkt sig frekar. 

Rússar hafa smám saman aukið hernaðaraðgerðir sínar í kringum Karkív undanfarna mánuði og notfært sér takmarkaðar loftvarnir Úkraínu til að sprengja í og við borgina. Stjórnendur úkraínska hersins telja að Rússar muni sækja áfram af enn meiri hörku næstu mánuði.

Úkraínskir embættismenn höfðu varað við því í margar vikur að Rússar gætu reynt að ráðast á landamærahéruð í norðausturhluta landsins og þannig aukið forskot sitt á meðan Úkraína glímir við tafir á aðstoð frá Vesturlöndum og skort á mannafla. 

Samkvæmt heimildum AFP-fréttastofunnar var herlið Rússa komið um einn kílómeter inn í Úkraínu í gærkvöldi. 

Bandaríkin lofa stuðningi

Bandaríkin tilkynntu um 400 milljóna dala hernaðaraðstoð til Úkraínu nokkrum klukkustundum eftir að árásin hófst og sögðust talsmenn Bandaríkjastjórnar fullvissir um að Úkraína geti sigrað Rússa í aðgerðum sínum. 

John Kirby, talsmaður bandaríska þjóðaröryggisráðsins, sagði á blaðamannafundi í gær að möguleiki væri á framförum Rússa næstu vikur en ekki væri gert ráð fyrir neinum meiriháttar sigrum. Hann bætti við að með tímanum myndi frekari aðstoð frá Bandaríkjunum gera Úkraínu kleift að standast árásir Rússa. 

„Við trúum á hersveitir Úkraínumanna og erum að vinna allan sólarhringinn til að útvega þeim þann búnað, verkfæri og vopn sem þeir þurfa til að verjast þessum árásum,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert