Volodimír Selenskí Úkraínuforseti segir að grimmilegir bardagar standi nú yfir við hluta landamæranna að Karkív-héraði, þar sem þúsundir manna eru á vergangi eftir skyndiáhlaup Rússa.
„Varnarbardagar og grimmileg orrusta halda áfram á stórum hluta landamæra okkar,“ sagði Selenskí í ræðu í dag.
Hann telur tilganginn með árásum Rússa vera að dreifa úr liðsafla Úkraínumanna og grafa undan baráttuvilja Úkraínumanna.
Fleiri þúsund manns hafa flúið heimili sín í Karkív-héraði í norðausturhluta Úkraínu eftir stöðugar árásir Rússa á svæðinu síðan á föstudag.
Rússneska varnarmálaráðuneytið hefur gefið út að Rússar hafi nú náð níu landamæraþorpum á sitt vald. Ráðuneytið segir að hersveitir þess hafi „komist djúpt inn fyrir varnir óvinarins“.