Þúsundir hafa flúið heimili sín í Karkív-héraði í norðausturhluta Úkraínu eftir stöðugar árásir Rússa á svæðinu síðan á föstudag.
Rússneska varnarmálaráðuneytið hefur gefið út að Rússar hafi nú náð níu landamæraþorpum á sitt vald. Ráðuneytið segir að hersveitir þess hafi „komist djúpt inn í varnir óvinarins“.
Úkraínski herinn sagðist halda aftur af frekari árangri Rússa.
„Alls hafa 4.073 manns verið fluttir á brott,“ segir Oleg Synegubov, héraðsstjóri Karkív, á samfélagsmiðlum.
Úkraínsk stjórnvöld hafa gefið út að óbreyttir borgarar hafi fallið í árásum Rússa. Nokkrir féllu í skotárásum í gær og einn fannst látinn í rústum í nótt samkvæmt lögreglu í landamærabænum Vovchansk.
Bygging hrundi í rússnesku landamæraborginni Belgorod eftir árás Rússa með þeim afleiðingum að sautján manns særðust.
Yfirvöld á svæðinu hafa varað við því að tala látinna og særðra geti hækkað eftir því sem björgunaraðgerðum miðar áfram.
„Tilraunir rússneskra hermanna til að brjótast í gegnum varnir okkar hafa verið stöðvaðar,“ sagði Oleksandr Syrsky, yfirhershöfðingi Úkraínu.
Hann sagði þó að ástandið á Karkív-svæðinu hafi versnað verulega og væri flókið. „Úkraínskar hersveitir gera allt sem þær geta til að halda varnarlínum sínum sterkum.“
Úkraínskir embættismenn höfðu varað við því í margar vikur að Rússar gætu reynt að ráðast á landamærahéruð sín í norðausturhluta landsins og aukið þannig forskot sitt á meðan Úkraína glímir við tafir á aðstoð frá Vesturlöndunum og skort á mannafla.