Fyrstu tvíhliða viðræður Bandaríkjanna og Kína um gervigreind verða haldnar á morgun. Fulltrúar stjórnvalda í Washington munu þar reifa áhyggjur sínar af því hvernig þau í Peking hafa beitt tækninni fyrir sig, að sögn bandarískra embættismanna.
Viðræðurnar verða haldnar í Genf og verða fulltrúar beggja ríkja háttsettir embættismenn.
Innan Bandaríkjanna er ekki búist við að neinir formlegir samningar náist eða að Kínverjar reynist mjög samvinnufúsir, en samt sem áður stendur vilji til að opna á samskiptaleiðir til að varpa ljósi á ólíkar skoðanir og áhættumat ríkjanna beggja vegna Kyrrahafsins.
Bandarískur embættismaður, sem ræðir við fréttastofu AFP gegn því að njóta nafnleyndar, segir þróun gervigreindar í Kína eiga sér stað með hætti sem grefur undan þjóðaröryggi Bandaríkjanna og bandamanna þeirra.
„Við munum ítreka áhyggjur okkar af notkun Kína á gervigreind í því samhengi,“ hefur AFP eftir honum.
Áður hafa stjórnvöld í Washington lýst áhyggjum sínum af því að hróflað verði við lýðræðislegum kosningum með hjálp gervigreindar.
Sérfræðingar í Bandaríkjunum hafa þá talað opinskátt um vaxandi möguleika kínverskrar gervigreindar til að framleiða djúpfalsanir á þekktu fólki, til að villa um fyrir almenningi.
Niðurstaða alþjóðlegrar ráðstefnu, sem haldin var í Vínarborg fyrr í mánuðinum, var sú að ríki heimsins ættu að koma á fót regluverki yfir gervigreindarvopn á meðan þau eru enn á fyrstu stigum þróunar.
Bent var á að rétt eins og byssupúður og kjarnavopn, þá gæti gervigreind gjörbylt hernaði og raunar gert hinar ýmsu deilur mannanna óþekkjanlegar frá þeim sem nú eru uppi. Og um leið mun banvænni.
Með aðstoð gervigreindar má breyta alls kyns vopnum í sjálfvirk kerfi, þökk sé skynjurum sem stýrt er af algrími sem svo leyfir tölvunni að sjá og skynja heiminn, ef svo má segja.
Þar með má hafa uppi á mennskum skotmörkum, velja þau og ráðast á – eða skotmörk sem innihalda manneskjur – án þess að önnur manneskja hafi átt þar hlut að máli.
Bandarísk stjórnvöld hafa hvatt Kína og Rússland til að lýsa því yfir, eins og Bandaríkin og önnur ríki hafa þegar gert, að einungis manneskjur muni geta tekið ákvarðanir um beitingu kjarnavopna. Gervigreind megi þar hvergi koma nærri.
Ríkisstjórnin vestanhafs hefur að undanförnu reynt að dýpka viðræður við Kína um annars vegar kjarnavopnastefnu ríkjanna og hins vegar vöxt gervigreindar á alþjóðavísu.
Umfang gervigreindartækni bar á góma í víðtækum viðræðum utanríkisráðherra ríkjanna beggja, Antonys Blinkens og Wangs Yi, í Peking þann 26. apríl. Í kjölfarið var ákveðið að halda fyrstu tvíhliða viðræðurnar um málaflokkinn. Þær hefjast á morgun, eins og áður sagði.