Rússar sækja fram í Úkraínu

Um sex þúsund íbúar í landamæraþorpum í Úkraínu hafa flúið …
Um sex þúsund íbúar í landamæraþorpum í Úkraínu hafa flúið heimili sín eftir innrás Rússa á föstudag. AFP/Roman Pilipey

Rússar hafa náð yfir 30 bæjum og þorpum í norðausturhluta Karkív-héraðs í Úkraínu á sitt vald eftir að hafa hafið óvænta sókn á landamærum Úkraínu á föstudag. 

Yfirvöld í Úkraínu hafa gefið út að Rússar hafi náð „taktískum árangri“ eftir árásir síðustu daga. 

Meira en sex þúsund íbúar hafa þurft að flýja heimili sín.

Stöðugar árásir Rússa

Oleg Synegubov, héraðsstjóri Karkív, tjáði sig um árásirnar á samfélagsmiðlum og sagði svæðið hafa verið undir stöðugum árásum Rússa undanfarna daga. Að minnsta kosti níu særðust í árásunum. 

Samkvæmt heimildum AFP-fréttastofunnar gerði Úkraína drónaárás á vesturhluta Rússlands. Drónar á vegum Úkraínumanna lentu á olíustöð á Belgorod-landamærasvæðinu og rafmagnsaðveitustöð á Lipetsk-svæðinu.

Harðir bardagar eru nú við landamærin.
Harðir bardagar eru nú við landamærin. AFP/Roman Pilipey

Rússnesk yfirvöld á svæðinu sögðu að kona hefði látist og þrír hafi særst þegar dróni lenti á bílum.

Stjórnvöld í Rússlandi og Úkraínu hafa ráðist á orkuinnviði hvorra annarra og hafa framleiðslustöðvar Úkraínu orðið fyrir miklum skemmdum síðan stríðið hófst.

Á Telegram-síðu nátengdri stjórnvöldum í Úkraínu hefur komið fram að rússneskir hermenn séu búnir að ná yfir 100 kílómetra svæði við landamærin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert