Söguleg refsikrafa í Noregi

Matapour fylgt inn í dómsalinn í Ósló við upphaf réttarhaldanna …
Matapour fylgt inn í dómsalinn í Ósló við upphaf réttarhaldanna í mars. Aðalmeðferð máls hans lauk í dag eftir tveggja mánaða málflutning. Saksóknari krefst sögulegrar refsingar miðað við norska dómaframkvæmd. AFP/Lise Åserud

Aud Kinsarvik Gravås, saksóknari í máli Zaniars Matapours, sem nú er réttað yfir í Ósló fyrir skotárásina á Pride-deginum þar í borg 25. júní 2022, krefst 30 ára fangelsisdóms yfir ákærða sem er söguleg refsikrafa í Noregi. Telur saksóknari árásarmanninn hafa vitað fullkomlega hvað hann var að gera og hann eigi sér engar málsbætur.

Norsk lög fjalla um úrræði sem heitir forvaring og hættulegustu afbrotamenn landsins hafa verið dæmdir eftir, svo sem Anders Behring Breivik. Þau lög heimili ævilangt fangelsi en slíkt verður ekki dæmt í einu lagi, almennt hlýtur sakamaður þá tíu eða tuttugu ára dóm með ákveðinni lágmarksrefsingu.

Lokadagur aðalmeðferðar í dag

Telji dómari, að fengnu áliti sérfræðinga, að brotamaður sé ekki hæfur til að ganga laus í samfélaginu að afplánaðri lágmarksrefsingu er unnt að dæma hann til nýrrar tíu ára refsingar án nýrrar ákæru og svo koll af kolli sé ekki talið óhætt almannahagsmuna vegna að hann gangi laus.

Mynd úr öryggismyndavél veitingastaðar í Grønland-hverfinu í Ósló sem tekin …
Mynd úr öryggismyndavél veitingastaðar í Grønland-hverfinu í Ósló sem tekin var af Matapour klukkan 16:10 föstudaginn 24. júní 2022 að norskum tíma, níu klukkustundum áður en hann skaut tvo menn til bana og særði rúmlega 20 í atlögu sinni. Ljósmynd/Norska lögreglan

Í dag var lokadagur aðalmeðferðar máls Matapours en hún hefur staðið í um tvo mánuði og er eitt af umfangsmeiri sakamálum í sögu Noregs sé litið til réttarhaldanna en árás Matapours á Pride-hátíðinni í Ósló sumarið 2022 vakti ómælda skelfingu. Lét hann til skarar skríða vopnaður hálfsjálfvirku skotvopni og lágu tveir í valnum auk þess sem 23 særðust.

Byssan stóð á sér í miðri árás og stukku almennir borgarar þá á árásarmanninn, sem er norsk-íranskur Kúrdi, og höfðu hann undir.

Iðraðist einskis

Verjandi Matapours, John Christian Elden, heldur því fram að árás hans hafi ekki verið beint gegn samkynhneigðum og því síður hafi þar verið um hryðjuverk að ræða. Þetta fellst ákæruvaldið engan veginn á enda hleypti Matapour fyrsta skotinu af svo að segja þegar Pride-hátíðin stóð sem hæst að kvöldi 25. júní 2022.

„Þegar litið er til háttsemi brotamannsins verður að skoða hana eins og hún var hvort tveggja fyrir og eftir atburðinn,“ segir Gravås við norska ríkisútvarpið NRK, sannfærð um að árásin hafi verið hryðjuverk.

„Við vitum að hann öfgavæddist [hér notar saksóknari hugtakið ble radikalisert] á löngu tímabili og sór Ríki íslams hollustu. Við vitum að eftir árásina hefur hann hvorki iðrast né sýnt nokkur merki meðaumkvunar með fórnarlömbum sínum,“ segir Gravås enn fremur.

Hún kveður ákæruvaldið þeirrar skoðunar að Matapour hafi takmarkaða tengingu við samfélagið og viðhorf hans gefi til kynna fjölda áhættuþátta sem bendi til þess að hann láti til skarar skríða á ný gefist honum færi til.

Norðmenn voru harmi lostnir eftir atburðinn aðfaranótt 25. júní 2022 …
Norðmenn voru harmi lostnir eftir atburðinn aðfaranótt 25. júní 2022 og myndaðist blómahaf í miðborg Óslóar daginn eftir árásina. Ljósmynd/AFP/Hå­kon Mos­vold Lar­sen

Brot byggt á hugmyndafræði

„Við teljum líkur á að ákærði brjóti af sér á ný. Engu að síður þurfa grunnskilyrðin [fyrir svo þungum dómi] að vera fyrir hendi og grunnskilyrðin hér eru hagsmunir samfélagsins sem ákæruvaldið er sannfært um að teljist ekki uppfyllt með hefðbundnum fangelsisdómi,“ bætir saksóknari við.

Bendir hún á, með vísan til dómafordæma Hæstaréttar Noregs, að hættan á ítrekun brots sé sérstaklega mikil þegar um hryðjuverk er að ræða og rökstyður með því að brotið byggi fyrst og fremst á hugmyndafræði hins brotlega.

Cecilie Lilaas-Skari, aðstoðarlögreglustjóri í Ósló, ásamt lögfræðingi lögreglunnar, Borge Enoksen, …
Cecilie Lilaas-Skari, aðstoðarlögreglustjóri í Ósló, ásamt lögfræðingi lögreglunnar, Borge Enoksen, á blaðamannafundi vegna árásarinnar daginn eftir að hún var framin. AFP

Deilt hefur verið um sakhæfi Matapours við aðalmeðferðina, einkum hvort hann hafi á verknaðarstundu verið í því ástandi andlega að skilja hverjar afleiðingar brot hans gætu orðið. Um þetta deildu þrjú sérfróð vitni fyrir Héraðsdómi Óslóar og greindi þau á um niðurstöður. Tvö þeirra töldu Matapour hafa verið meðvitaðan um gjörðir sínar á verknaðarstundu, eitt vitnanna taldi hann ekki hafa verið ábyrgan gjörða sinna vegna andlegra annmarka er ódæðið var framið.

Vitnið sem taldi ákærða óábyrgan gjörða sinna, Synne Sørheim geðlæknir, taldi hann hafa þjáðst af ofsóknarkenndum geðklofa og því væri ekki unnt að refsa honum heldur bæri dómara að dæma hann til vistunar á viðeigandi stofnun.

Hvern dóm Zaniar Matapour hlýtur í héraði verður ljóst á efsta degi sem líkast til rennur upp snemma í júní þar sem aðalmeðferð fyrir héraðsdómi lauk í dag.

NRK

VG

Dagbladet

Nettavisen

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert