Fico ekki í lífshættu: Handtóku 71 árs gamlan rithöfund

Maður var handtekinn í dag grunaður um að hafa reynt …
Maður var handtekinn í dag grunaður um að hafa reynt að verða Fico að bana. AFP

Robert Fico, forsætisráðherra Slóvakíu, er ekki lengur í lífshættu eftir að banatilræði var gert að honum fyrr í dag. Maðurinn sem er grunaður um að hafa skotið Fico er 71 árs gamall rithöfundur.

Slóvakíski miðillinn aktuality.sk hefur á eftir Tomas Taraba, varaforsætisráðherra og umhverfisráðherra Slóvakíu, að Fico sé ekki lengur í lífshættu.

Miðillinn greinir einnig frá því að 71 árs rithöfundur sé talinn hafa skotið forsætisráðherrann. Innanríkisráðherra landsins staðfesti það við fjölmiðla í kvöld að 71 árs gamall maður væri í haldi grunaður um árásina.

Gráhærður og grunaður

„Ég held að ég geti staðfest þetta, já,“ sagði Matus Sutaj Estok innanríkisráðherra við blaðamenn, spurður út í myndir þar sem sést í manninn í haldi á vettvangi skotárásarinnar í bænum Handlová.

Gráhærði maðurinn sást í handjárnum á jörðinni rétt eftir að Fico var skotinn fimm sinnum eftir ríkisstjórnarfund. Robert Kalinak, varnamálaráðherra landsins, sagði seint í kvöld að Fico væri að berjast fyrir lífi sínu en hann hefur verið í skurðaðgerð í marga klukkutíma.

Fjölmiðlar greina frá því að hinn grunaði sé stofnandi bókmenntaklúbbsins DUHA (Regnbogans) og sé frá bænum Levice.

Sonur mannsins ræddi við fjölmiðla

Sumir miðlar hafa nafngreint hann. Hann á að hafa skrifað þrjú ljóðasöfn og hafa verið meðlimur í Rithöfundafélagi Slóvakíu frá árinu 2015. Félagið hefur nú vikið honum úr félaginu.

Sonur grunaða mannsins sagði við slóvakíska fjölmiðilinn að hann hefði „gjörsamlega enga hugmynd hvað pabbi var að pæla, hvað hann var að plana [eða] hvers vegna þetta gerðist.“

Kalinak sagði við fjölmiðla í dag að árásin væri „pólitísk“.

Spítalinn í Banska Bystrica.
Spítalinn í Banska Bystrica. AFP
Robert Kalinak, varnamálaráðherra Slóvakíu, rædi við fjölmiðla í dag.
Robert Kalinak, varnamálaráðherra Slóvakíu, rædi við fjölmiðla í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert