Robert Fico: Umdeildur forsætisráðherra

Fico var skotinn þegar hann gekk út af ríkisstjórnarfundi í …
Fico var skotinn þegar hann gekk út af ríkisstjórnarfundi í dag. AFP

Forsætisráðherra Slóvakíu, sem er í lífshættu eftir skotárás fyrr í dag, hefur lengi verið umdeildur stjórnmálamaður. Hann er talinn hliðhollur Rússum og er sagður tengjast ítölsku mafíunni og gamla Kommúnistaflokknum í Tékkóslóvakíu.

Hinn 59 ára Robert Fico (borið fram Fítso) var skotinn margsinnis er hann yfirgaf ríkisstjórnarfund í borginni Hand­lová fyrr í dag. Var hann fluttur á spítala í borginni Banska Bystrica og er hann talinn í lífshættu.

Fico er sá forsætisráðherra sem hefur gegnt embættinu lengst í sögu Slóvakíu. Hann hefur verið forsætisráðherra í fjögur kjörtímabil, sum styttri en önnur, og er vel sjóaður í stjórnmálum. 

Fico hneig niður þegar hann var skotinn margsinnis í dag.
Fico hneig niður þegar hann var skotinn margsinnis í dag. AFP

Hætti að senda vopn til Úkraínu

Á kjörtímabilinu hefur Fico látið ýmis ummæli um Úkraínu falla. Hann hefur m.a. lagt til að stjórnvöld í Kænugarði láti Rússum landsvæði sitt í té til að binda enda á stríðið.

Fico hætti einnig að senda vopn til Úkraínu til að verjast innrás Rússa sem hófst í febrúar 2022. Í kosningabaráttunni sagðist hann ekki ætla að láta Úkraínumenn fá eitt einasta skotfæri.

Flokkur hans, Smer-SD, vann kosningarnar með 23% atkvæða. Flokkurinn myndaði síðan bandalag með hægriflokkunum SNS.

Fico er gjarnan kallaður popúlisti. Áður hafði hann fagnað upptöku evrunnar í Slóvakíu en í kosningabaráttu sinni 2023 beindi hann spjótum sínum að Evrópusambandinu, Atlantshafsbandalaginu og Úkraínu. Hann sótti þannig fylgi róttækra kjósenda á báðum vængjum.

Hann kallaði pólitíska andstæðinga sína „stríðsæsingamenn“ og sagðist ekki myndu heimila handtöku Vladimírs Pútíns, forseta Rússlands, samkvæmt alþjóðlegri handtökuskipun ef Pútín kæmi til Slóvakíu.

Maður var handtekinn í dag grunaður um að hafa reynt …
Maður var handtekinn í dag grunaður um að hafa reynt að ráða Fico bana. AFP

Var þingmaður kommúnistaflokksins

Fico er fæddur 15. september 1964. Hann er lögfræðingur að mennt en hóf stjórnmálaferil sinn í Kommúnistaflokknum rétt fyrir Flauelsbyltinguna í Tékkóslóvakíu 1989, þar sem kapítalismi og lýðræði voru í brennidepli.

Síðan gekk Fico í vinstriflokkinn SDL árið 1998 en flokksmenn eru margir sagðir hafa aðhyllst stefnu gamla kommúnistaflokksins. 

Fico náði aftur á móti ekki langt innan SDL, varð til að mynda ekki fyrir valinu sem forsætisráðherraefni í prófkjöri flokksins, og fyrir vikið hætti hann í flokknum og stofnaði sinn eigin flokk, krataflokkinn Smer-SD árið 1999.

Hann hefur gegnt formennsku í Smer-flokknum frá stofnun hans. Fico var einnig fulltrúi Slóvakíu fyrir Mannréttindadómstól Evrópu í Strassborg á árunum 1994 til 2000. Stjórnmálafræðingar telja að ráðherrann sæki mikinn innblástur til Sovétríkjanna. 

Hann hefur sjálfur alltaf neitað því að vera popúlisti og múgæsingamaður.

Langt til hægri í útlendingamálum

Þegar Smer-flokkurinn vann þingkosningar 2006, tveimur árum eftir að Slóvakía gekk í Evrópusambandið, varð Fico loksins forsætisráðherra og gegndi hann því embætti til 2010.

Slóvakía tók upp evruna árið 2009, en eftir kosningar 2010 fór hann aftur í stjórnarandstöðu þar sem honum tókst ekki að mynda stjórn. 

Hann varð síðan aftur forsætisráðherra 2012 þegar hann vann kosningarnar eftir að hægristjórnin sprakk.

Þegar flóttamannavandinn skall á Evrópu árið 2015 tók Fico harða afstöðu gegn innflytjendum, neitaði að rýma fyrir stofnun „sérstaks samfélags múslima í Slóvakíu“ og lagði niður flóttamannakvóta ESB í landinu.

Árið 2016 laut hann aftur á móti lægra haldi í forsetakosningum. Marg­ir sér­fræðing­ar töldu að ef Fico hefði unnið þá hefði hann reynt að breyta stjórn­ar­skrá lands­ins og færa völd frá þing­inu til for­set­ans. Hann hélt samt áfram sem forsætisráðherra.

Sagði af sér eftir mótmæli 2018

Smer vann aftur kosningar 2016 en kjörtímabili hans sem forsætisráðherra lauk tveimur árum síðar í kjölfar þess að rannsóknarblaðamaðurinn Jan Kuciak og unnusta hans fundust skotin til bana.

Morðið vakti mikla reiði í Slóvakíu, enda hafði Kuciak afhjúpað tengsl ítölsku mafíunnar við ríkisstjórn Ficos í síðustu grein sinni. Í kosningum árið 2020 tók við annað stjórnarsamstarf en Fico hélt sæti sínu á þingi.

Árið 2023 vann Fico enn aðrar kosningar, þar sem hann lagði áherslu á aukið samband við Rússa.

Fico talar reiprennandi ensku, hefur gaman af hraðskreiðum bílum og knattspyrnu og kann vel að meta dýr úr. Hann er kvæntur Svetlönu Ficovu lögfræðingi og á með henni soninn Michal, en slóvakískir fjölmiðlar hafa greint frá því að þau hjónin hafi skilið.

Fordæmingar úr öllum áttum

Forsætisráðherranum var sýnt banatilræði í dag og er hann talinn í lífshættu.

Fjöldi þjóðarleiðtoga hefur fordæmt árásina, m.a. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra Íslands, Ursula von der Leyen for­seti fram­kvæmda­stjórn­ar ESB og einnig Joe Biden Bandaríkjaforseti. Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur sömuleiðis fordæmt árásina.

Lögreglan í Slóvakíu hefur handtekið einn mann sem er grunaður um verknaðinn. Enn er óljóst hvort ráðherrann lifi af.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert