Þakklátur Kínverjum fyrir friðarumleitanir

Pútín og Xi Jinping takast í hendur í morgun.
Pútín og Xi Jinping takast í hendur í morgun. AFP/Sergei Bobylyov

Vladimír Pútín Rússlandsforseti segist vera þakklátur kínverskum stjórnvöldum fyrir að reyna að finna lausn á stríðinu í Úkraínu. Hann fagnar jafnframt auknum efnahagstengslum við Kína.

Þetta sagði hann á blaðamannafundi í Peking, höfuðborg Kína, þar sem hann stóð við hlið Xi Jinping, forseta Kína, degi eftir að Pútín sagði að hersveitir hans væru að sækja fram á „öllum vígstöðvum” í Úkraínu.

„Ég ætla að upplýsa forseta Kína um ástandið vegna krísunnar í Úkraínu. Við erum þakklát vinum okkar og samstarfsmönnum í Kína fyrir frumkvæði þeirra við að reyna að leysa þetta vandamál,” sagði Pútín.

Pútín og Xi Jinping í morgun.
Pútín og Xi Jinping í morgun. AFP/Sergei Bobylyov

Rússar segjast tilbúnir til að ræða við Úkraínu um endalok stríðsins. Þeir segja þó jafnframt að Úkraínumenn verði að viðurkenna stöðuna sem er uppi, þ.e. að Rússar hafi sölsað undir sig héröðin Dónetsk, Kerson, Lugansk og Sapóritsjía.

Vesturlönd segja að óljósar friðartillögur Kínverja sem voru settar fram í fyrra myndu leyfa Rússum að halda í flest þau svæði sem þau hafa náð á sitt vald í Úkraínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert