Ástand Robert Fico, forsætisráðherra Slóvakíu, er enn mjög alvarlegt að sögn staðgengils hans.
Gerð var tilraun til að ráða Fico af dögum í fyrradag og hefur 71 árs gamall rithöfundur verið handtekinn, grunaður um verknaðinn.
Að sögn Roberts Kalinak varnarmálaráðherra gekkst Fico undir tveggja tíma aðgerð í morgun en hafði áður gengist undir fimm klukkustunda aðgerð skömmu eftir að hann var fluttur á sjúkrahús.
„Ástand hans er enn mjög alvarlegt og það mun taka nokkra daga til að sjá hvernig honum reiðir af,“ sagði Kalinak við fréttamenn.
Forstjóri sjúkrahússins í Banska Bystrica sem Fico dvelur á segir að forsætisráðherrann sé með meðvitund þrátt fyrir að ástand hans sé alvarlegt.
Fyrr í dag greindu fjölmiðlar í Slóvakíu frá því að slóvakíska lögreglan hefði gert húsleit á heimili mannsins sem ákærður var fyrir skotárásina.