Samþykktu umdeildan launapakka

Rekstur Boeing hefur verið í járnum undanfarin ár eftir ítrekuð …
Rekstur Boeing hefur verið í járnum undanfarin ár eftir ítrekuð vandamál sem tengjast vélum félagsins. AFP/Kevin Dietsch

Hluthafar Boeing samþykktu á ársfundi á dögunum að greiða fráfarandi forstjóra fyrirtækisins Dave Calhoun launapakka að andvirði 33 milljóna dala, eða því sem nemur 4,6 milljörðum íslenskra króna, fyrir síðasta ár.

Launapakkinn þykir umdeildur sökum þeirrar krísu sem flugvélaframleiðandinn stendur nú frammi fyrir.

Hefur Boeing mátt þola harða gagnrýni á síðustu mánuðum vegna framleiðslugalla og öryggisvandamála sem hafa komið fram í dagsljósið. Í janúar fauk neyðarhurð af MAX-vél Alaskan Airlines.

BBC greinir frá.

Heldur sæti í stjórn fyrirtækisins

Meirihluti hluthafa greiddi atkvæði með launapakkanum þrátt fyrir gagnrýni í aðdraganda ársfundarins. Þess má geta að Calhoun fékk launapakka að andvirði 22,6 milljóna dala árið 2022. Er launapakki síðasta árs því umtalsvert stærri en árið á undan. 

Þá hefur það einnig verið gagnrýnt að Calhoun fái að halda sæti sínu í stjórn félagsins þrátt fyrir að hann muni stíga til hliðar sem forstjóri undir lok árs.

Hann tók við starfinu í janúar árið 2020. Var áframhaldandi seta hans í stjórninni samþykkt á ársfundinum.

Nýr stjórnarformaður Steve Mollenkopf sagði að stjórnin hefðu dregið verulega úr bónusgreiðslum til stjórnenda árið 2024 í kjölfar slyssins í janúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka