Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn (ICC) hefur farið fram á handtökuskipanir á hendur Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, Yoav Gallant, varnarmálaráðherra Ísraels, og Yahya Sinwar, leiðtoga Hamas á Gasa.
CNN greinir frá því að krafan sé lögð fram á grundvelli stríðsglæpa og glæpa gegn mannkyninu vegna hryðjuverkanna 7. október og stríðsins sem hefur geisað á Gasa eftir það.
Karim Khan, saksóknari við dómstólinn, óskaði þess að handtökuskipanir yrðu gefnar út og munu dómarar dómstólsins úrskurða um þær.
Einnig er farið fram á handtökuskipun á hendur háttsettra leiðtoga innan Hamas. Þeir eru ákærðir fyrir „útrýmingu, morð, gíslatöku, nauðgun og kynferðisofbeldi“.
Þetta er í fyrsta sinn sem ICC fer fram á handtökuskipun á hendur leiðtoga sem er svo náinn bandamaður Bandaríkjamanna, eins og Netanjahú er.
Ísraelski forsætisráðherrann er þar líklega kominn í hóp manna á borð við Vladimír Pútín Rússlandsforseta, en ICC gaf út handtökuskipun á hendur honum eftir innrásina í Úkraínu.
Fréttin hefur verið uppfærð.