Ebrahim Raisi, forseti Íran, og Hossein Amirabdollahian, utanríkisráðherra Íran, létust í þyrluslysi í gær. Þetta hafa íranskir fjölmiðlar nú staðfest.
Þyrlan nauðlent harkalega vegna veðurskilyrða í norðvesturhluta landsins. Var þyrlan á leið frá Aserbaísjan til írönsku borgarinnar Tabriz í fylgd tveggja annarra þyrla. Alls voru níu um borð í þyrlunni sem hrapaði.
Viðbragðaðilar fundu þyrluna snemma í morgun og greindu íranskir miðlar þá frá slysinu.
„Þjónn írönsku þjóðarinnar, Ayatollah Ebrahim Raisi hefur náð æðsta stigi píslarvættis á meðan hann þjónaði fólkinu,“ sagði í útsendingu ríkisfjölmiðlisins. Þá voru birtar myndir af forsetanum og í undirleik heyrðist lesið upp úr Kóraninum.
Viðbragðsaðilar Rauða hálfmánans fundu þyrluna um 15 klukkustundum eftir að neyðarkall barst. Þá kom í ljós að allir sem voru um borð voru þegar látnir.
Líkin verða flutt til borgarinnar Tabriz.
Íranska ríkisstjórnin hefur greint frá því að hún muni starfa áfram.
Mohammad Mokhber varaforseti mun taka við forsetaembættinu samkvæmt ákvæði stjórnarskrár landsins. Hann er 68 ára gamall og varð varaforseti þegar að Raisi tók við forsetaembættinu árið 2021.
Æðsti klerkurinn, Ali Khameini, þarf þó fyrst að samþykkja Mokhber sem forseta.
Samkvæmt stjórnarskránni eiga kosningar að fara fram innan 50 daga.
Fjölmargir þjóðarleiðtogar hafa vottað Írönum samúð sína, svo sem Mohamed bin Zayed Al Nahyan, forseti Sameinuðu arabísku furstadæmana, Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, og Hakan Fidan, utanríkisráðherra Tyrklands.
Shehbaz Sharif, forsætisráðherra Pakistan, lýsti yfir eins dags þjóðarsorg þar í landi.
„Ég ásamt ríkisstjórninni og fólkinu í Pakistan vottum írönsku þjóðinni okkar dýpstu samúð vegna þessa hræðilega missis,“ sagði í færslu Sharif á X.
Raisi fór í opinbera heimsókn til Pakistan í apríl til þess að bæta samband þjóðanna tveggja eftir mannskæðar árásir í báðum löndum fyrr á árinu.
Hryðjuverkasamtökin Hamas vottuðu Írönum samúð sína og sögðu í yfirlýsingu að Raisi hefði verið „virðingaverður stuðningsmaður“ samtakanna. Hamas sögðust virkilega kunna að meta samstöð Raisi í stríðinu gegn Ísrael.
Þá harmaði líbanska Hezbollah-hreyfingin dauða forsetans en hreyfingin hefur notið stuðnings Íran.
Í yfirlýsingu sögðu þau Raisi hafa verið „verndara“ hópa á svæðinu sem eru á móti Ísrael.
Charles Michel, forseta leiðtogaráðs Evrópusambandsins, vottaði fjölskyldum hinna látnu samúð.
Forsetinn var 63 ára að aldri og hlaut kjör til embættis forseta árið 2021. Fyrsta kjörtímabili hans var því við að ljúka. Raishi var kvæntur Jamileh Alamolhoda og áttu þau tvö börn.
Hann var almennt álitinn harðlínuklerkur sem þótti líklegur arftaki æðsta klerksins Ali Khameini sem hefur verið við völd síðan árið 1989.
Í forsetatíð Raisi var meðal annars hert á reglum um klæðaburð kvenna.
Haustið 2022 brutust út blóðug mótmæli eftir að siðgæðislögregla landsins myrti hina 22 ára gömlu Möshu Amini þar sem hún þótti hafa brotið gegn reglunum.
Fréttin hefur verið uppfærð