Megum ekki vanmeta írönsk stjórnvöld

Magnús Þorkell Bernharðsson er einn helsti sérfræðingur Íslands í málefnum …
Magnús Þorkell Bernharðsson er einn helsti sérfræðingur Íslands í málefnum Mið-Austurlanda. mbl.is/Hari

„Forvitnilegt verður að sjá þróun mála í Íran eftir skyndilegt andlát forseta landsins, Ebrahim Raisi, í þyrluflugslysi í gær,“ segir Magnús Þorkell Bernharðsson, prófessor í sögu Mið-Austurlanda við Williams College í Massachussets-fylki Bandaríkjanna.

Segir Magnús þetta setja ætlanir um arftaka æðsta klerks Írans, Ali Khamenei, í uppnám en ekki megi vanmeta klókindi stjórnvalda þarlendis. 

„Við megum ekki vanmeta hversu langt þeir vilja ganga til þess að viðhalda þessu kerfi og sérstaklega stöðu þeirra sem hafa aðgang að kerfinu.“ 

Var líklegur arftaki

Hvaða áhrif mun dauði Raisi hafa?

„Það verður fróðlegt að sjá það enda margir búnir að spá því fyrir að hann tæki við stöðu æðsta klerksins Ali Khamenei, sem er orðinn 85 ára gamall og ekki endilega vel við heilsu,“ segir Magnús. 

„Þannig að þetta setur það í uppnám en það sem einkennir stjórnvöld í Íran er að þau eru mjög markviss, vilja viðhalda stöðugleika og tryggja það að þau sitji áfram við völd. Þeir munu gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að nýta tækifærið til að sýna fram á stöðugleika.

Þannig er búið að tilkynna fimm daga þjóðarsorg í Íran þó svo að margir í Íran séu ekki á því að syrgja þurfi manninn.“

Menn hengja upp mynd af Ebrahim Raisi.
Menn hengja upp mynd af Ebrahim Raisi. AFP/Ahmad al-Rubaye

Leikur á borði fyrir andstæðinga innanlands

Magnús telur ólíklegt að eitthvað róttækt muni eiga sér stað á næstum dögum innan Írans eða hið minnsta ekki fyrr en eftir að yfirlýst þjóðarsorg sé yfirstaðin. Það megi þó vera að einhverjir andstæðingar stjórnvalda nýti sér stöðuna.

„Það gæti verið að fólk sjái þarna tækifæri og veikleika á stjórninni og reyni kannski að nýta sér stöðuna með einhverjum hætti.“

Yrðu það þá helst andstæðingar innanlands eða utanaðkomandi aðilar sem sæju sér leik á borði?

„Ég held frekar innbyrðisaðilar og fólkið í landinu. Mótmæli einkenndu mjög forsetatíð hans, þá meðal annars í tengslum við dauðsfall Mansha Amini,“ segir hann. 

„Kannski að fólk nýti sér tækifærið, þegar búið er að syrgja hann, og sýni áfram óánægju sína með stöðu mála.“

Þá segir Magnús að einhverjir innan stjórnkerfisins gætu einnig nýtt sér tækifærið en að Khamenei sé meðvitaður um að hann þurfi að tryggja stöðu klerkastjórnarinnar. 

„Ég held að Khamenei sé það meðvitaður um eigin stöðu og að hann sé á leiðinni út að hann vilji ekki hafa eitthvað ferli sem er óútreiknalegt, heldur vilji hann tryggja ferli sem komi hans mönnum að í embættið.“

Ayatollah Ali Khamenei, æðsti leiðtogi Írans.
Ayatollah Ali Khamenei, æðsti leiðtogi Írans. AFP

Gætu leitað að blóraböggli

Magnús nefnir í framhaldinu að túlka megi orsök slyssins á tvo vegu. 

„Eitt er að það eru auðvitað efnahagsþvinganir á Íran og þar af leiðandi er oft erfitt að fá varahluti í til dæmis flugvélar og þyrlur. Þetta er eitt af því sem Íran á í mestu basli við, að færa flugherinn en ég veit ekki hvort það sé endilega út af því að þetta hafi gerst svona með þessum hætti.

Hitt er að kannski eftir einhverja daga komi fram samsæriskenningar um af hverju þetta gerðist og hvort einhver hafi verið að verki. Aðstæður voru auðvitað slæmar með þoku og þess háttar en það gæti reynst auðvelt fyrir ríkisstjórnina að kenna utanaðkomandi aðilum um.“

Þá segir Magnús að þannig gætu stjórnvöld í Íran styrkt eigin stöðu og tryggt eigin mönnum frekari tök á stjórnartaumunum. 

Samsæriskenningar í bígerð

Það gerist ekki oft að Íran taki yfir fyrirsagnir heimspressunnar með jafn skömmu millibili. Síðast í apríl þegar þeir hófu loftárásir á Ísrael og nú með dauða Raisi. Margir myndu segja tímasetninguna óheppilega. Hvert er þitt mat á henni?

„Varðandi árásirnar þá vildu greinilega hvorki Ísrael né Íran horfa upp á átökin stigmagnast. Þetta var taktískt hjá báðum, bara til að sýna að þeir gætu þetta en þeir fóru ekki alla leið, vildu ekki beita öllum sínum tækjum og tólum.

Utanríkisráðherrann, Hossein Amir-Abdollahian, sem lést einnig í þyrluslysinu, hafði verið mjög vökull í alþjóðasamskiptum í Mið-Austurlöndum og var að mati margra mjög fær og það er kannski eitt af því sem vekur áhyggjur núna. Fólk hefur verið að hringja í hann og hann verið hluti af því að gæta ákveðins jafnvægis í þessum málum.“

Hossein Amir-Abdollahian var að mati margra fær utanríkisráðherra segir Magnús.
Hossein Amir-Abdollahian var að mati margra fær utanríkisráðherra segir Magnús. AFP

Segir Magnús að lokum að á þessari stundu telji hann að stjórnvöld muni einbeita sér að ástandinu innanlands áður en litið verði út fyrir landsteinana. 

„Þetta er allt bara að gerast mjög hratt. Það er erfitt að spá í það hvað gerist næst en eitt verður að hafa í huga með Íran. Við höfum vanmetið mjög stjórnvöldin þar og hvað þau eru taktísk að viðhalda eigin völdum. Núna munu þau beita sér með ákveðnum hætti til að tryggja eigin stöðu.“

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert