Sýkna eða 30 ár

Matapour fylgt inn í dómsalinn í Ósló við upphaf réttarhaldanna …
Matapour fylgt inn í dómsalinn í Ósló við upphaf réttarhaldanna í mars. AFP/Lise Åserud

Marius Dietrichson, verjandi hryðjuverkamannsins grunaða, Zaniars Matapours, sem nú er réttað yfir í Ósló fyrir hryðjuverkaárásina á Pride-hátíðinni þar í borg 25. júní 2022, krefst sýknu fyrir hönd skjólstæðings síns og telur hann hafa verið óábyrgan gjörða sinna á verknaðarstundu.

Þá telur Dietrichson óvíst að Matapour hafi yfirleitt átt þátt í árásinni sem kostaði tvö mannslíf auk þess sem rúmlega tuttugu manns hlutu sár af. Verjandinn gagnrýnir að auki norsku leyniþjónustuna og telur jafnvel að hún hafi eggjað Matapour til verknaðarins.

Krefst sýknu að hluta eða öllu

„Matapour verði sýknaður af refsikröfunni. Í framhaldinu hljóti hann þau meðferðarúrræði sem best henta,“ hljóðar krafa verjandans fyrir Héraðsdómi Óslóar þar sem aðalmeðferð málsins fer nú fram. Til vara krefst saksóknari þess að skjólstæðingi hans verði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa.

Telur verjandinn að Matapour skuli hið minnsta sýknaður af þeim hluta refsikröfunnar sem snýr að þeim þætti brotsins er hann telur að útsendari norsku leyniþjónustunnar hafi beinlínis hvatt til í samskiptum sínum við Matapour, hvort sem unnt verði að fella allt brotið þar undir eða einungis þann hluta sem snýr að meintu hryðjuverki.

Bak við múrana til efsta dags

Aðalmeðferð við héraðsdómstólinn er lokið og átti saksóknari þar lokaleik og og flutti lokaræðu sína í hverri hann krafði dómendur um þyngstu refsingu sem lög leyfa, 30 ára forvaring-dóm. Forvaring táknar bókstaflega þýtt varðveislu og er sama réttarúrræði og Anders Behring Breivik sætti – refsidómur sem framlengja má án nýrrar ákæru eða réttarhalda telji geðfróðir sérfræðingar að brotmanninum sé ekki enn treystandi til að strjúka um frjálst höfuð í mannlegu samfélagi.

Slíka dóma má framlengja um ákveðinn árafjölda til viðbótar án lögákveðinna marka sem táknar í raun að nægilega háskalegur brotamaður geti varið því sem hann á eftir ólifað bak við múrana.

NRK

Dagsavisen

Nettavisen

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert