Anthony Albanese, forsætisráðherra Ástralíu, hefur krafist þess að Julian Assange, stofnandi WikiLeaks, verði leystur úr haldi.
Komið var tímabundið í veg fyrir framsal Assange frá London til Bandaríkjanna í gær eftir að Hæstiréttur Bretlands veitti Assange leyfi til að áfrýja framsalinu.
Albanese ítrekaði ósk sína um að Assange yrði sleppt úr haldi og sagði áframhaldandi fangelsun hans ekki þjóna neinum tilgangi.
„Við höldum áfram að vinna ötullega að þeirri niðurstöðu,” sagði Albanese og bætti við að núna væri nóg komið.
Breska ríkisstjórnin samþykkti í júní árið 2022 framsal Assange. Hann hefur verið lokaður inn í Belmarsh-fangelsinu í London síðan í apríl 2019 eftir að hafa verið fastur í sjö ár í sendiráði Ekvadors í London.