Ástand forsætisráðherra Slóvakíu, Robert Fico, er stöðugt að sögn staðgengils hans, Robert Kalinak, viku eftir að Fico var skotinn fjórum sinnum. Sagði hann ástand Fico engu að síður alvarlegt og áverka hans flókna.
„Flutningur á honum er klárlega út úr myndinni á þessu stigi máls,“ sagði Kalinak á blaðamannafundi í dag.
Fico hefur legið á Banska Bystrica sjúkrahúsinu í viku vegna árásarinnar og er árásarmaður hans talinn vera Juraj Cintula, skáld á áttræðisaldri, sem er í haldi lögreglu.
Á sunnudag sagði innanríkisráðherra Slóvakíu, Matus Sutaj Estok, að lögreglan hefði nú til skoðunar hvort Cintula kynni að eiga vitorðsmenn.
„Ein sviðsmynd er að árásarmaðurinn hafi verið hluti af hóp sem hafi hvatt hvort annað til að fremja glæpinn,“ sagði Estok.
Sagði Estok að einhver hefði eytt Facebook-leitarsögu árásarmannsins og samskiptum á meðan lögregla var með hann í haldi.
Segir slóvakíska fjölmiðlaeftirlitsstofnunin aftur á móti að Meta, móðurfyrirtæki Facebook, hefði tilkynnt stofnuninni að stjórnendur þar hefðu eytt reikningi árásarmannsins í samræmi við notendareglur miðilsins.
Sagði Kalinak, sem einnig er varnarmálaráðherra Slóvakíu, að gera þyrfti greinarmun á niðurstöðum rannsóknar slóvakískra yfirvalda og skýrslu Meta.
Sagði hann yfirvöld hafa haft upplýsingar um að skilaboðum og leitarsögu Cintula hafi verið eytt áður en Meta eyddi reikningnum.
Morðtilraunin er sögð til marks um pólitískan klofning í Slóvakíu en Fico tók við embættinu í október eftir að flokkur hans, Smer, sigraði þingkosningar í landinu. Hafði hann gegnt embættinu þrisvar sinnum áður.
Er Fico sagður hliðhollur Rússum en hann hefur til að mynda stöðvað vopnasendingar til Úkraínu eftir að hann tók við embættinu. Er hann einnig sagður eiga tengsl við ítölsku mafíuna og gamla Kommúnistaflokkinn í Tékkóslóvakíu.