Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar, greindi frá því á spænska þinginu í morgun að spænsk stjórnvöld hafi tekið þá ákvörðun að viðurkenna sjálfstæði Palestínu frá og með 28. maí.
„Næsta þriðjudag, 28. maí, mun ríkisstjórn Spánar samþykkja viðurkenningu á palestínska ríkinu,“ sagði Sanchez þegar hann ávarpaði spænska þingið í morgun.
Sanchez bætti því við að ísraelski starfsbróðir hans, Benjamín Netanjahú, væri að setja tveggja ríkja lausnina í hættu með stefnu sinni um eyðileggingu á Gasa.
„Það er afar mikilvægt að Ísrael og Palestína semji um frið og það er ástæða þess að við viðurkennum sjálfstæði Palestínu,“ sagði spænski forsætisráðherrann ennfremur.
Fyrr í morgun tilkynnti Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Norðmanna, að Norðmenn ætli að viðurkenna sjálfstæði Palestínu frá og með 28. maí og Írar hafa gert slíkt hið sama.