Kínverjar segja stjórnvöld í Taívan vera að ýta eyjunni út í „háskalegt ástand stríðs og hættu“. Heræfingar þeirra fara nú fram í kringum Taívan.
„Síðan hann tók við embætti hefur leiðtogi Taívans ögrað einu meginreglu Kína...og ýtt félögum okkar í Taívan út í háskalegt ástand stríðs og hættu,“ sagði talsmaður varnarmálaráðuneytis Kína, Wu Qian, í tilkynningu.
Síðastliðinn mánudag sagði nýr forseti Taívans, Lai Ching-te, þegar hann sór embættiseið að jákvæðar horfur væru í lýðræðissögu eyjarinnar og hét hann því að verja lýðræði hennar. Kínverjar brugðust við með því að efna til heræfinganna.
Talsmaðurinn varaði einnig við því að mótaðgerðir Kína gegn Taívan myndu ganga lengra ef stjórnvöld í landinu halda áfram að tala opinberlega um sjálfstæði eyjarinnar.
„Í hvert sinn sem okkur er ögrað með „sjálfstæði Taívans“ þá munum við stíga einu skrefi lengra í mótaðgerðum okkar þangað til algjör sameining við föðurlandið næst á nýjan leik,“ sagði hann.