Alþjóðadómstóllinn hefur skipað Ísrael að stöðva innrás sína inn á Rafah á sunnanverðri Gasaströndinni þegar í stað. Ísraelskir ráðherrar munu funda um næstu skref.
Dómstóllinn vill að opnað verði fyrir flutning hjálpargagna í gegnum Rafah-landamærin.
Þetta kom fram í máli Nawaf Salam, forseta dómstólsins, er hann kvað upp bráðabirgðaúrskurð í máli Suður-Afríku gegn Ísrael. Breska ríkisútvarpið greinir frá.
Þá segir, að Ísrael eigi einnig að sjá til þess að eftirlitsmenn geti rannsakað aðstæður á Gasaströndinni, þar sem stríð hefur nú geisað í 7 mánuði. Auk þess krefst Alþjóðadómstóllinn að Ísraelsmenn skili inn skýrslu innan mánaðar þar sem greint er frá því hvernig gengið hefur að fylgja þessum fyrirmælum.
Suður-Afríka hafði stefnt Ísrael fyrir dómstólinn og sakað Ísraelsmenn um brot gegn lögum um þjóðarmorð í stríðsrekstri Ísraels á Gasaströndinni.
Alþjóðadómstóllinn er æðsti dómstóll Sameinuðu þjóðanna og getur kveðið upp lagalega bindandi úrskurði í deilum milli ríkja. Dómstóllinn hefur aftur á móti lítil úrræði til að framfylgja úrskurðum sínum.
Alþjóðadómstóllinn skoraði einnig á Hamas-samtökin að sleppa öllum gíslum sínum úr haldi þegar í stað, og sagði Salah það vera mikið áhyggjuefni hversu margir væru enn í haldi samtakanna eftir 7. október. Úrskurður dómstólsins í dag snerist hins vegar um það hvort Ísrael væri að fremja þjóðarmorð eða ekki.
Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, hefur kallað fleiri ráðherra á sinn fund til að ræða tilskipun ICJ, að sögn AFP.
Fjármálaráðherrann Bezalel Smotrich, sem er talinn mjög til hægri í ísraelskum stjórnmálum, brást við á X, áður Twitter, og skrifaði að „sagan mun dæma þá sem stóðu í dag við hlið nasistanna í Hamas Daes.“
Ísraelsher hefur sagt að eitt helsta markmið sitt sé að útrýma Hamas-hryðjuverkasamtökunum til að hefna sín á árásinni þann 7. október, þar sem um 1.200 manns voru drepnir og um 250 teknir í gíslingu.
Ísrael segir að innrás í Rafah sé lykilatriði í því verkefni.
Áætlað hefur verið að um 36 þúsund manns hafi fallið í innrás Ísraelsmanna á Gasasvæðinu. Innrásin hefur orðið til þess að fjöldi Palestínumanna hefur flúið suður. Borgin Rafah er á syðsta hluta strandarinnar.