Slökkt á beltisljósinu þegar ókyrrðin skall á

Farþegaþotan á flugvellinum í Bangkok.
Farþegaþotan á flugvellinum í Bangkok. AFP

Slökkt var á beltisljósinu þegar ókyrrðin skall óvænt á, að sögn Evu Khoo, systur manns sem var farþegi í flugvélinni sem lenti í alvarlegri ókyrrð í vikunni. 

Khoo segir í samtali við AFP-fréttaveituna að áhöfnin hafi verið að bera fram mat og safna saman rusli, þegar flugvélin hafi allt í einu byrjað að hristast.

Í það minnsta 48 manns enn á sjúkrahúsi

Einn farþegi lést og meira en 100 manns slösuðust þegar flugvél Singapore Airlines af gerðinni Boeing 777 féll 1.800 metra á nokkrum mínútum í flugi frá London til Singapúr.

Flugvélin nauðlenti í Bangkok og eru að minnsta kosti 48 manns enn á sjúkrahúsi, þar á meðal einn Íslendingur.

Farþegar og áhöfn flugvélarinnar höfðu einungis nokkrar sekúndur til að bregðast við áður en ókyrrðin skall á, að sögn Khoo.

Bróðir hennar og ólétt mágkona sátu án öryggisbelta í sætum sínum, bróðir hennar hafi skotist á gólfið og mágkonan skotist upp í loft og aftur niður. 

Herða reglur um notkun öryggisbelta

Að sögn Khoo þurfti mágkona hennar að fara í aðgerð á hrygg og er bróðir hennar bundinn við hjólastól eftir ókyrrðina. Auk þess hafi fjórir ættingjar hennar endað á gjörgæslu á sjúkrahúsi í Bangkok og sumir væru enn rúmliggjandi og hefðu ekki getu í að hreyfa sig. 

Hún segir að einn fjölskylduvinur hafi verið í öryggisbelti en hann hlaut þrátt fyrir það áverka á hálsi og að hann þurfi að nota bakstuðning í að minnsta kosti sex mánuði. 

Flugfélagið Singapore Airlines sagði í dag að það hafi hert reglur um notkun öryggisbelta á flugi eftir atvikið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert