Fyrsta heimsóknin í 25 ár: Verja lýðræðið

Frakklandsforseti heilsar fólki í opinberri heimsókn til Þýskalands. Í bakgrunni …
Frakklandsforseti heilsar fólki í opinberri heimsókn til Þýskalands. Í bakgrunni má sjá Brandendborgarhliðið sem er eitt helsta kennileiti Berlínarborgar. AFP

Emmanuel Macron Frakklandsforseti lagði áherslu á að verja lýðræðið gegn þjóðernishyggju í komandi kosningum til Evrópuþingsins í opinberri heimsókn til Þýskalands í dag.

Heimsóknin er sú fyrsta sem Frakklandsforseti hefur farið í til Þýskalands í aldarfjórðung.

Fyrsta viðkoma forsetans í heimsókninni var í „lýðræðishátíð“ sem haldin var í Berlín. Tilefni hátíðarinnar er 75 ára afmæli stjórnarskrár Þýskalands sem tók gildi 23. maí 1949.

Barátta að viðhalda lýðræði

„Við gleymum því of oft að það er barátta að vernda lýðræðið,“ sagði Macron þegar hann og Frank-Walter Steinmeier Þýskalandsforseti héldu tölu.

Macron sagði að ef þjóðernissinnaðir flokkar hefðu verið við völd í Evrópu á undanförnum árum hefði sagan ekki þróast á sama hátt. Benti hann því til stuðnings til ákvarðana í tengslum við heimsfaraldur kórónuveiru og innrás Rússlands inn í Úkraínu.

Frakklandsforsetahjónin fyrir framan Brandendborgarhliðið með Kai Wegner borgarstjóra Berlínar.
Frakklandsforsetahjónin fyrir framan Brandendborgarhliðið með Kai Wegner borgarstjóra Berlínar. AFP

„Við þurfum bandalag lýðræðissinna í Evrópu,“ sagði Steinmeier.

„Macron hefur réttilega bent á að aðstæður í dag fyrir Evrópuþingskosningarnar eru aðrar en við fyrri kosningar. Margt hefur gerst,“ bætti hann við.

Tvær vikur eru til kosninga til Evrópuþingsins og benda skoðanakannanir til ýmissa vandræða fyrir Macron en miðjubandalag hans mælist undir því flokkabandalagi sem staðsett er yst til hægri. Benda skoðanakannanir jafnvel til þess að það gæti orðið erfitt fyrir bandalag Macrons að ná þriðja sæti.

Forsetarnir héldu tölu á blaðamannafundi fyrir utan heimili forseta Þýskalands.
Forsetarnir héldu tölu á blaðamannafundi fyrir utan heimili forseta Þýskalands. AFP

Sömu sögu er að segja í Þýskalandi en allir þrír flokkarnir í bandalagi Olafs Scholz kanslara Þýskalands mælast undir róttæka hægriflokknum AfD í skoðanakönnunum. Virðast hneykslismál AfD sem varða innflytjendamál ekki hafa haft áhrif á fylgi flokksins.

Orðræðan haldi ekki vatni

Á blaðamannafundi lét Macron þau orð falla að hann muni afhjúpa hægri Þjóðfylkingu Frakklands (RN) og að ekkert í orðræðu þeirra héldi vatni.

„Ólíkt mörgum mun ég ekki venjast þeirri hugmynd að Þjóðfylking Frakklands sé bara enn einn stjórnmálaflokkurinn. Svo þegar hann mælist efstur í könnunum lít ég á þennan flokk og hugmyndir hans sem ógn við Evrópu,“ sagði Macron.

Meðal gesta í veislu Þýskalandsforseta var Angela Merkel fyrrverandi kanslari …
Meðal gesta í veislu Þýskalandsforseta var Angela Merkel fyrrverandi kanslari Þýskalands. Hún lét af embætti árið 2021 eftir að gegnt embættinu frá árinu 2005 fyrst kvenna. AFP

Steinmeier efndi til veislu í tilefni heimsóknar Macron og vísaði hann til ógnarinnar sem stafar af Rússlandi í ræðu sinni.

„Saman verðum við að læra aftur að verja okkur betur gegn árásarmönnum og gera samfélög okkar þolnari gegn árásum innan frá og utan,“ sagði hann.

Macron fer svo til Dresden sem er í Saxlandi, sem áður tilheyrði Austur-Þýskalandi, en þar hefur AfD mikinn stuðning.

Á þriðjudag mun Macron heimsækja vestur-þýsku borgina Münster og síðar Meseberg sem er rétt fyrir utan Berlín. Þar mun hann hitta Scholz og verður þar sameiginlegur fundur ríkisstjórna beggja landa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert