„Fólk særðist ekki bara eða lést, það brann,“ segir Mohammed Hamad, 24 ára gamall Palestínumaður, í samtali við AFP-fréttastofuna í kjölfar loftárásar Ísraela á flóttamannabúðir í Rafah-borg sem varð að minnsta kosti 45 manns að bana í gærkvöldi eftir því sem palestínska heilbrigðisráðuneytið greinir frá.
Vinna við að hreinsa til í rústunum og bera lík á brott hefur staðið í allan dag og að sögn ráðuneytisins særðust minnst 249 í atlögunni.
Hamad segir þrettán ára gamla frænku sína meðal látinna og hafi hún verið óþekkjanleg þar sem sprengjubrot hafi afmáð andlit hennar með öllu.
Ísraelski herinn heldur því fram að árásin hafi beinst að herstöð Hamas í Rafah sem er á sunnanverðu Gasasvæðinu og hafi tveir hátt settir Hamas-liðar þar látið lífið. Á myndskeiðum frá Rauða hálfmánanum, hliðstæðu Rauða krossins í Mið-Austurlöndum, má sjá fjölda sjúkrabíla koma á vettvang og flytja særða á brott, þar á meðal börn.
Undnar málmplötur og sviðnir tréplankar var það eina sem eftir var er eldarnir höfðu verið slökktir og var engin merki að sjá um að tjöld hefði verið að finna á svæðinu. „Þegar sprengjurnar falla á byggingar farast tugir, hvernig fer þá þegar um tjöld er að ræða?“ spyr Hamad örvinglaður í viðtalinu við AFP.
Fjöldi fólks greinir frá því að hafa séð illa útleikin og brunnin lík óþekkjanlegra fórnarlamba og viðbragðsaðilar kveðast hafa átt fullt í fangi við að athafna sig við slökkvistarf og flutning særðra og látinna vegna þess hve vatn og eldsneyti er orðið af skornum skammti á Gasa.
Mohammed Abu Qamar kveðst furðulostinn yfir árás á búðir sem ísraelski herinn hefði skilgreint sem öruggt svæði, en hann var nýfluttur úr búðum á Norður-Gasa þegar árásin var gerð. „Það kom okkur í opna skjöldu þegar sprengjurnar dundu á búðunum í gær, þær voru skilgreindar sem öruggar,“ segir hann.