Úkraína verði að fá að nota langdræg vopn

Josep Bor­rell, ut­an­rík­is­mála­stjóri ESB.
Josep Bor­rell, ut­an­rík­is­mála­stjóri ESB. AFP/Christine Olsson/TT News Agency

Josep Bor­rell, ut­an­rík­is­mála­stjóri Evr­ópu­sam­bands­ins, hvetur vestrænríki til að endurskoða ákvörðun sína um að takmarka möguleika Úkraínu til að beita langdrægum vopnum. Hann segir Úkraínu eiga rétt á að beita vestrænum vopnum til að gera árásir á Rússa. 

„Samkvæmt stríðslögum er það raunhæfur möguleiki og ekki í neinni mótsögn. Ég gæti hefnt mín eða barist gegn þeim sem berst gegn mér frá yfirráðasvæði sínu,“ sagði Borrell við upphaf fundar með varnarmálaráðherrum Evrópusambandsins sem hófst í morgun. 

„Það verður að vera jafnvægi milli hættunnar á stigmögnun og þörf Úkraínumanna til að verjast.“

Óttast afleiðingar þess að beita langdrægum vopnum

Úkraína hefur að undanförnu þrýst á vestrænu bandamenn sína um að fá heimild til að skjóta á Rússland með langdrægum vopnum sem Úkraínumönnum hefur verið útvegað. 

Helstu bandamenn Úkraínu, þar á meðal Bandaríkin og Þýskaland, hafa þó verið treg til að samþykkja slíka árás af ótta við stigmögnun.

Nokkrir varnarmálaráðherra studdu fullyrðingar Borrell á fundinum í Brussel. 

Kajsa Ollongren, varn­ar­málaráðherra Hol­lands, sagði Holland til að mynda ekki setja sig upp á móti notkun Úkraínumanna á langdrægum vopnum og kvaðst vona að „lönd sem væru á öðru máli myndu breyta afstöðu sinni“.

„Það er hugsanlegt að Úkraína þurfi að gera árás innan Rússlands,“ sagði Ollongren og bætti við að það væri hennar skoðun að um þetta þyrfti ekki að deila.  

„Getur ekki verið eðlilegt“

Hanno Pevk­ur, varn­ar­málaráðherra Eistlands, sagðist sannarlega vona að öll þau lönd sem hefðu látið Úkraínu fá langdræg vopn veiti Úkraínumönnum heimild til að nota þau. 

„Það getur ekki verið eðlilegt að Rússar séu að ráðast langt inn á úkraínskt landsvæði og Úkraínumenn berjist með aðra hendi fyrir aftan bak,“ sagði hann.

Ákall um notkun langdrægra vopna kom í kjölfar þess að Jens Stolten­berg, fram­kvæmda­stjóri Atlants­hafs­banda­lags­ins, NATO, sagði að tími væri kominn til þess að bandamenn myndu endurskoða takmarkanir sínar. Sérstaklega í ljósi þess að Rússar herja nú á úkraínsku borgina Karkív frá eigin yfirráðasvæði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert