Átakanleg sjón blasti við starfsfólki Legolands í Billund í Danmörku þegar það mætti í vinnuna í morgun: Stór hluti Minilands hafði brunnið til grunna.
Grunur leikur á að skammhlaup í rafknúnum leikfangabíl hafi valdið brunanum.
„Þetta er sorglegur dagur. Okkar fólk leggur hjarta sitt í vinnuna og Miniland á sérstakan stað í hjörtum flestra og hefur mikla þýðingu fyrir þá sem hafa byggt og haldið við byggingarnar í gegn um árin,“ segir Kasper Tangsig, fjölmiðlafulltrúi Lególands, í samtali við JydskeVestkysten sem greinir frá.
Eldurinn braust út klukkan fjögur í morgun að dönskum tíma, tvö að íslenskum, og vegfarandi sem átti leið hjá gerði lögreglunni viðvart.
En þrátt fyrir að vel hafi gengið að slökkva eldinn brunnu nokkrar byggingar til grunna.
Í Minilandi er að finna vasaútgáfur af ýmsum stöðum veraldar, byggðar úr Lego að sjálfsögðu. Búið er að skoða myndefni úr öryggismyndavélum Legolands.
„Við getum séð á eftirlitsmyndefninu að eldurinn hefst á ákveðnum stað – í bíl eða vörubíl – og það er ekki önnur virkni á þessum tíma. Þannig að við erum nokkuð vissir um að þetta hafi verið skammhlaup,“ segir Tangsig en tækin í Minilandi eru hlaðin að nóttu sem degi.
Næstu skref hjá Legolandi er að hreinsa upp eftir brunann.
„Við vitum ekki enn hvort við ætlum að koma aftur hverfinu á fót sem var þarna áður eða hvort eitthvað nýtt að ætti að koma. Maður byggir víst bara nýtt – en það tekur tíma svo við þurfum að ræða það,“ segir Tangsig að lokum.