Evrópusambandið kemur á fót gervigreindarstofnun

Sími og fartölva sem sýna vörumerki OpenAI og ChatGPT.
Sími og fartölva sem sýna vörumerki OpenAI og ChatGPT. AFP/Marco Bertorello

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur sett á fót sérhæfða stofnun í gervigreindarmálum.

Markmið hennar er að tryggja hagkvæma og samkeppnishæfa framtíðarþróun gervigreindar innan sambandsins, ásamt því að draga úr þeim hættum sem tækninni fylgja.

Hlutverk stofnunarinnar er jafnframt að framfylgja nýjum og yfirgripsmiklum lögum sambandsins um gervigreind, en lögin eru ein þau fyrstu sinnar tegundar í heiminum. Með þeim vonast sambandið til þess að ná frekari stjórn á þróun tækninnar.

Lögunum er einnig sérstaklega stefnt gegn gervigreindarforritum líkt og ChatGPT, en er ætlað að auka gagnsæi í notkun persónuupplýsinga.

Framkvæmdastjórnin hefur þó sætt harðri gagnrýni fyrir að leggja megináherslu á reglusetningu í stað þess að styrkja þróun gervigreindar innan Evrópusambandsins. Hefur stjórnin þó heitið því að leggja fram einn milljarð evra á komandi árum, í ýmis verkefni tengd gervigreind.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert