Skora á NATO-ríkin að létta hömlum af Úkraínu

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, ávarpar hér þingmenn NATO-þingsins.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, ávarpar hér þingmenn NATO-þingsins. AFP/Nikolay DOYCHINOV

NATO-þingið var haldið í Sofíu, höfuðborg Búlgaríu, í vikunni, en það er samstarfs- og samráðs­vettvangur þing­manna aðildar­ríkja Atlantshafsbandalagsins. Nú sitja þar 200 þingmenn frá 32 bandalagsríkjum eftir að Svíþjóð bættist í hóp NATO-ríkja fyrr á þessu ári. 

Þingið sendi frá sér nokkrar ályktanir að þessu sinni, en þar á meðal var samþykkt sérstök yfirlýsing þingsins á mánudaginn, þar sem sérstaklega var skorað á bandalagsríkin að flýta fyrir vopnasendingum sínum til Úkraínu, sem og að létta hömlum af þeim vopnum, þannig að mögulegt verði að beita þeim á lögmæt hernaðarleg skotmörk innan Rússlands. 

Kominn tími til að átta sig á raunveruleikanum

Ályktunin var samþykkt með miklum meirihluta þeirra 200 þingmanna sem sátu NATO-þingið, en Michal Szczerba þingforseti sagði að brýnast væri að senda loftvarnarkerfi og önnur lífsnauðsynleg hergögn til Úkraínu sem fyrst og án takmarkanna.

Í tilkynningu á vef NATO-þingsins sagði Szczerba að Úkraínumenn þyrftu á hjálp vesturveldanna að halda núna, en ekki eftir tvö ár, tvo mánuði eða jafnvel tvær vikur, heldur strax.

„Úkraína getur bara varið sig ef hún getur ráðist á birgðalínur Rússa og bækistöðvar þeirra. Það er kominn tími til að átta sig á þessum raunveruleika og leyfa Úkraínumönnum að gera það sem þeir þurfa að gera.“

Rússar hófu fyrr í maímánuði nýjar sóknaraðgerðir í Karkív-héraði, en takmarkanir vesturveldanna á beitingu vestrænna vopnakerfa innan Rússlands þýddu meðal annars að Úkraínumenn þurftu að fylgjast með liðssafnaði Rússa við landamærin að héraðinu án þess að grípa til aðgerða. Þá hafa Rússar beitt loftárásum í síauknum mæli frá flugvöllum sem eru utan þess svæðis sem Úkraínumenn geta hæft án vestrænu vopnakerfanna. 

Nú þegar hafa ellefu bandalagsríki lýst því yfir að Úkraínumenn megi beita vopnum frá sér innan landamæra Rússlands, þar á meðal Bretland, Þýskaland og Frakkland. Bandaríkjamenn hafa hins vegar ekki viljað veita leyfi sitt fyrir slíku til þessa. 

Biden sagður íhuga stefnubreytingu

Bandaríska dagblaðið New York Times greindi svo frá því í gær að Hvíta húsið hefði hafið endurskoðun á stefnu sinni varðandi það hvort að leyfa ætti Úkraínumönnum að beita vestrænum vopnum innan landamæra Rússlands. 

Sagði í frétt blaðsins að líklega yrði ný ákvörðun tekin mjög fljótlega, og hafði blaðið eftir heimildarmönnum sínum innan Bandaríkjastjórnar, að þeir teldu að stefnubreyting væri óumflýjanleg, en að leyfinu myndu fylgja mjög strangar takmarkanir, þannig að vopnunum yrði einungis beitt gegn hernaðarlegum skotmörkum sem væru skammt frá landamærum Úkraínu. Áfram yrði óheimilt að beita vestrænum vopnum gegn skotmörkum langt innan landamæra Rússlands eða á mikilvæga innviði Rússa. 

Þá töldu heimildarmennirnir líklegt að ekki yrði um formlega tilkynningu að ræða, heldur myndi stefnubreytingin einungis koma í ljós þegar fyrstu skotmörkin yrðu hæfð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert